Hópur þekktra jöklafræðinga telur að sjávarborð gæti hækkað mun meira en áður hefur verið talið vegna bráðnunar Grænlandsjökuls og Suðurskautsjökulsins.Tómas Jóhannesson fagstjóri á sviði jöklafræði hjá Veðurstofu Íslands segir að vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna sé farin að gera ráð fyrir mun meiri breytingum en áður var miðað við.

Hollendingar gerðu ráð fyrir verri stöðu

Grein vísindamannanna var birt í vísindaritinu PNAS Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America og sagt var frá henn á vef breska ríkisútvarpsins. Greinarhöfundar eru allir þekktir jöklafræðingar sem hafa fengist við rannsóknir á Grænlandi og Suðurskautslandinu í áratugi. Þeir setja ekki fram ný gögn heldur draga saman upplýsingar frá mörgum vísindamönnum og reikna út skásta möguleika og það versta sem getur gerst.  

Tómas segir að vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hafi sett fram í seinni tíð frekar hófsamar spár um sjávarborðshækkun en ýmsir hafa talið að talsverðar líkur séu á því að breytingarnar verði miklu meiri. 
 
„Þannig að Hollendingar til dæmis ákváðu fyrir mögum árum að miða við versta möguleika, að sjávaryfirborð gæti hækkað um hátt í metra á þessari yfirstandandi öld. Og þar er miðað við einn metra sem hönnunarforsendu fyrir langtímauppbyggingu á flóðvarnargörðunum í Hollandi þó að vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna geri ráð fyrir mun minni breytingu.“

200 sinnum fleiri flóttamenn en var frá Sýrlandi

Greinarhöfundar velta fyrir sér hversu mikið sjávarborð hækki hugsanlega en ganga ekki bara út frá meðaltalshækkun eða líklegasta gildi. Mögulega hækkar yfirborð sjávar miklu meira ef breytingar verða á Suðurskautsjöklinum og Grænlandsjökli og gæti hafa hækkað um tvo metra undir lok aldarinnar ef málin þróast á versta veg. 

Þeir reikna út fimm til 95 prósent líkur á breytingum. 95 prósent líkur eru á því að sjávarborðshækkun verði tveir metrar að meðaltali við jörðina og fimm prósent líkur eru á því að hún verið heldur meiri.  

„Og það er þá pólitísk spurning, hvað eigum við að taka þennan 5% möguleika alvarlega? Sjávarborðshækkunin er meðal alvarlegustu afleiðinga af loftslagsbreytingum. Og hún getur leitt til vandræða á mjög stórum strandsvæðum þar sem milljónir manna búa. Og það er nefnt í þessari grein að ef að allt fer á versta veg og þessi 5% möguleiki verður að raunveruleika þá gæti 200 sinnum fleiri farið á flótta af þessum svæðum heldur en flóttamannastraumurinn var frá Sýrlandi.“ 

Hrun að byrja á Suðurskautsjöklinum 

Gríðarlega mikið sé undir. Ekki hafi fundist beinar vísbendingar um það að það allra versta verði að veruleika. 

„En það hefur verið sú þróun síðustu fimm til tíu árin að það virðist vera byrjað hrun á ákveðnum hlutum Suðurskautsjökulsins og rýrnun Grænlandsjökuls fer hraðvaxandi þannig að vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna er núna farin að gera ráð fyrir breytingum sem eru mun meiri en áður var miðað við vegna þess að jöklabreytingarnar eru miklu hraðari en áður var miðað við. Og svokallaðar dýnamískar breytingar á ísflæðinu virðast leggja miklu meira til hafsins heldur en áður.“  

Ákveðið ferli á Suðurskautslandinu sé hafið sem leiðir til þess að hlutar Vestur-Suðurskautslandsins eiga eftir að hrynja saman og þá hækkar sjávarborð um einhverja metra á allmörgum öldum. Ekki eru til góð líkön eða forsendur til að segja til um hve hratt þetta gerist. Í greininni er talað um hlýnun frá tveimur og upp í fimm gráður og að það sé mjög alvarlegt mál. 

Taka þarf mið af jarðfræðilegum vísbendingum 

„Það er alveg ljóst út frá jarðfræðilegum vísbendingum frá ísöldum og hlýskeiðum sögunnar að hlýnun sem er verulega umfram tvær gráður mun þegar til lengri tíma er litið leiða til mjög mikillar hækkunar á sjávarborði. Sjávarborð var til dæmis um tíma á jörðinni um átta til níu metrum hærra á  hlýskeiði fyrir 120 þúsund árum síðan. Og þá er talið að það hafi verið kannski tveimur gráðum hlýrra en núna. Þannig að ef að það hlýnar um meir en tvær gráður þá eru mjög sterkar jarðfræðilegar vísbendingar um að sjávarborð muni hækka um marga metra.“
 
Tómas segir að niðurstöður greinarhöfunda séu mjög í anda þess sem nokkur hópur vísindamanna hefur haldið fram í áraraðir. Þeirra kunnastur er James Hansen sem var forstöðumaður loftslagsrannsóknamiðstöðvar NASA í áraraðir.  

Vitnisburður Hansens fyrir bandarískri þingnefnd árið 1988 er talinn marka upphaf á nútímaumræðu um loftslagsbreytingar. 
Hann lagði fram gögn og útreikninga sína fyrir þingnefndina og sagði meðal annars að loftslagsbreytingar væru hafnar og myndu ganga langt og afleiðingar yrðu mjög alvarlegar.  

Hann hefur ennfremur sagt að vísbendingar úr rannsóknum á jarðsögu á ísöldum gefi bestu hugmynd um það hversu viðkvæmt jarðkerfið er fyrir hlýnun. Tómas segir að líkönin okkar séu mjög ófullkomin og taka mörg bara tillit til þeirra ferla sem sést að er hafnir en síðan eru önnur ferli sem ekki er búið að mæla að neinu viti  sem fara að hafa mikil áhrif þegar hlýnunin er orðin mjög mikil.

Hansen leggi áherslu á að horfa til jarðsögulegra vísbendinga „sem benda þá til hækkunar upp á fimm til tíu metra þegar til langs tíma er litið ef hlýnar um tvær til þrjár gráður. Margir telja að núna á síðustu fimm eða tíu árum séum við að sjá fara í gang það ferli sem á endanum mun leiða til sjávarborðshækkunar upp á þetta fimm til tíu metra ef að hlýnar um tvær til þrjár gráður. Og þessi grein sem við erum að tala um hún er í mjög góðu samræmi við það sem Jim þessi Hansen og ýmsir aðrir hafa haldið fram í áratugi.“