Kvennalandslið Íslands í fótbolta vann 4-1 sigur gegn heimakonum frá Portúgal í síðasta leik sínum á Algarve-æfingamótinu í dag og tryggði sér þar með 9. sæti mótsins.
Agla María Albertsdóttir kom Íslandi yfir strax á annarri mínútu leiksins en Selma Sól Magnúsdóttir tvöfaldaði forystu liðsins á 38. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir landsliðið.
Á 88. mínútu skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir þriðja mark Íslands eftir stoðsendingu frá Dagnýju Brynjarsdóttur. Markið er það fyrsta sem Margrét Lára skorar fyrir landsliðið síðan í júni 2016 þegar hún skoraði eitt marka Íslands í 4-0 sigri gegn Skotlandi á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2017.
Portúgalar minnkuðu muninn skömmu síðar en Svava Rós Guðmundsdóttir innsiglaði 4-1 sigur Íslands í uppbótartíma með sínu fyrsta landsliðsmarki.
Helstu atvik leiksins og mörkin fimm má sjá í spilaranum að ofan.