Martin Hermannsson tryggði Íslandi nauman 83-82 sigur gegn Sviss í Laugardalshöll í dag. Liðin áttust við í forkeppni EM 2021 í körfubolta.

Ísland átti boltann í stöðunni 82-81 fyrir Sviss þegar rúmar fimm sekúndur lifðu leiks en íslenska liðið tapaði gegn Portúgal á fimmtudag þegar Tryggva Snæ Hlinasyni brást bogalistin í skoti á lokasekúndu leiksins.

Aðra sögu er að segja af Martin sem setti skot sitt niður á lokasekúndu leiksins við mikinn fögnuð í höllinni. Sjón er sögu ríkari en körfu Martins má sjá að ofan.

Martin skoraði einnig næst síðustu körfu Íslands í leiknum þegar hann hafði komið sér í erfiða stöðu þegar skotklukkan var við það að renna út. Hann skaut þá yfir Clint Capela, leikmann Houston Rockets í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. Þá körfu má sjá að neðan.