Embættismaður í landbúnaðarráðuneytinu sem leiðir fyrir hönd ráðherra störf nefnda sem fjalla um undanþágur frá tollum og verðlagningu mjólkur, hefur um árabil setið í stjórnum fjölda fyrirtækja með stjórnendum Kaupfélags Skagfirðinga, annars eiganda Mjólkursamsölunnar.
Talsmaður Samtaka verslunarinnar segir fjölmörg dæmi um að stjórnvöld hygli Mjólkursamsölunni og tengdum fyrirtækjum á kostnað verslunarinnar, sem fái ekki sömu afgreiðslu við samskonar beiðnum. Fyrirtækið Hagar hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna þessa og telur ráðuneyti landbúnaðarmála hafa brotið samkeppnislög.
Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í Landbúnaðarráðuneytinu, hafnaði beiðni Kastljóss um viðtal. Hann svaraði ekki spurningum um hvort þátttaka hans í viðskiptum ásamt Kaupfélagi Skagfirðinga og stjórnendum þess hafi vakið upp spurningu um hæfi hans til að taka á erindum keppinauta MS á markaði.
Hann hafnaði því hins vegar að nokkuð væri til í ásökunum um að mismunum fælist í afgreiðslum á umsóknum um innflutning búvara. Kastljós reyndi að fá viðbrögð landbúnaðarráðherra við þessu öllu en þeirri umleitan var ekki svarað.