Sjúkraþjálfarar fá talsvert af fólki til sín með bólgur, til að mynda í sinum og liðum. „Grunnliðurinn í þumlinum til dæmis er erfiður, “ segir Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfari hjá Heilsuborg. „Hann er svo grunnur og í raun og veru óstöðugur, þannig að þessi endurtekning verður mjög oft á tíðum alltof mikil.“ Hann segist oft útskýra fyrir fólki að til þess að skrifa eina A4 blaðsíðu, þurfi þumallinn að slá 500 sinnum á bilstöngina, 500 endurtekningar.
„Svo ætlar þú að gera þetta allan daginn og þú ætlar að gera þetta í símanum líka. Svo kemur þú inn til mín og skilur ekkert í því að þú ert að drepast í þumlinum. Við förum að telja þetta saman og þetta eru kannski 3000 endurtekningar yfir daginn. Þá segi ég við þig: „Þetta er ekkert svo mikið. Ég sé að þú þarft aðeins að styrkja á þér fæturnar, værir þú til í að vera búin með 3000 hnébeygjur fyrir mig þegar þú kemur í fyrirmálið.“ Þú getur ímyndað þér!“
Gunnar ræddi ýmis konar álag á mannslíkamann og þróun hans samfara breyttu samfélagin og örri tækniþróun, til að mynda aukið álag á hálsliðina þegar fólk hallar höfðinu fram á við þegar það skoðar efni á farsímanum sínum.
Halda farsímanum uppi til að hvíla hálsliði
„Höfuðið er um 5 kg,“ bendir Gunnar á og líkir hryggsúlunni og höfðinu við Legókubbaturn þar sem langstærsti kubburinn hefur verið settur efst og allt ætti að halda jafnvægi.
„Þessi staða skiptir svo miklu máli, 5 kg þrýstingur í gegnum hryggsúluna þar sem höfuðið situr í 0 er bara allt í góðu.“ Hann bendir á að ekki þurfi að færa höfuðið fram nema um 2,5 cm og þá tvöfaldist þrýstingurinn og togið á hálsinn. Það sé ansi mikið fyrir 7 hálsliði, sem séu ekkert sérstaklega sterkbyggðir.
„2,5 cm er ekki mikið miðað við það sem við sjáum í dag þar sem fólk er komið með höfuðið alveg ofan í bringu í símunum,“ segir Gunnar Svanbergsson. „Þannig að þú getur ímyndað þér að togið niður er kannski orðið 20-25 kg.“ Hann leggur til að fólk haldi farsímanum uppi fyrir framan sig í stað þess að teygja höfuðið niður og hvíli þumalinn svolítið með því að nota aðra fingur á símana með.
Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Gunnar í Samfélaginu á Rás 1 í spilaranum hér að ofan.