Sigurður Gunnar Þorsteinsson, miðherjinn sterki í liði ÍR leikur ekki meira með liðinu í Dominos-deildinni í körfubolta á leiktíðinni. Sigurður er með slitið krossband í hné. Gamanið var því stutt hjá honum, því Sigurður náði aðeins að leika níu mínútur fyrir ÍR á leiktíðinni.

„Það kom í ljós í vikunni að ég er með slitið krossband og er á leið í aðgerð eftir 19 daga,“ sagði Sigurður þegar hann ræddi við RÚV um meiðslin eftir leik Hauka og ÍR í Dominos-deildinni í kvöld. Haukar unnu leikinn 101-82.

Sigurður sem var í lykilhlutverki hjá ÍR á síðustu leiktíð þegar liðið fór alla leið í oddaleik í úrslitum Íslandsmótsins á móti KR gekk í raðir franska liðsins BC Orchies í sumar. Hann stoppaði þó stutt við þar og kom aftur til ÍR eftir að Íslandsmótið var hafið eða þann 23. október.

Meiddist snemma í fyrsta og eina leiknum í vetur

„Ég kem heim og er þá að leita mér að liði í útlöndum. Kannski hafði ég ekki alveg þolinmæðin í að bíða lengur eftir að finna mér lið, þannig ég ákvað að koma heim. Ég æfði svo með ÍR í einhverja 2-3 daga og hélt mér við í styrktarþjálfun og var í góðu líkamlegu formi. Svo fæ ég högg í leiknum þarna á móti Þór Akureyri og þá slít ég krossband,“ sagði Sigurður, en hann meiddist eftir aðeins níu mínútna leik í sínum eina leik fyrir ÍR í vetur.

„Ég hef aldrei slitið krossband áður. Þannig ég hélt að það væri verra og hélt því fyrst að þetta væri bara smá tognun í hné. En svo fór ég í myndatöku og þá kom annað í ljós,“ sagði Sigurður og að um mikið áfall væri að ræða, enda ætlaði hann sér stóra hluti í vetur.

Ekki búinn að átta sig almennilega á þessu ennþá

Hann segist ekki enn vera búinn að átta sig á því að leiktíðinni sé strax lokið hjá honum. „Það kemur kannski þegar ég vakna eftir aðgerð að ég átta mig á því að þetta sé mun alvarlegra en maður gerir sér grein fyrir núna,“ sagði Sigurður sem gerir ráð fyrir að vera Borce Ilievski þjálfara ÍR innan handar með liðið í vetur auk þess að koma að þjálfun yngri flokka hjá ÍR fyrst hann mun ekki geta spilað körfubolta á leiktíðinni.

Viðtalið við Sigurð Gunnar má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.