Sigurður Guðjónsson myndlistarmaður verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2021. Síðastliðin þrjú skipti hefur Kynningarmiðstöð Íslenskrar myndlistar auglýst eftir tillögum með útfærðum hugmyndum og listamann út frá þeim. Í þetta sinn var ákveðið að hafa annan hátt á.
Feneyjatvíæringnum lauk undir lok síðasta mánaðar en þegar hefur verið ákveðið hver verður fulltrúi Íslands á hátíðinni eftir tvö ár. Það er Sigurður Guðjónsson myndlistarmaður sem er þekktur fyrir magnþrungin vídjóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík og vöktu dökk og ágeng vídjóverk hans strax athygli.
Sigurður Guðjónsson er fæddur árið 1975. Hann nam myndlist við Listaháskóla Íslands en líka í Kaupmannahöfn og Vínarborg. Sigurður á að baki 20 einkasýningar víðs vegar um heim og hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018 fyrir verkið Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.
„Þetta var nú bara símtal á þriðjudagsmorgni og kom skemmtilega á óvart í haustinu,“ segir Sigurður. „Ég get ekki sagt að ég hafi verið að hugsa um þetta. Síðustu ár hefur verið óskað eftir hugmyndum. Ég bjóst við að það kæmi aftur þannig að þetta kom skemmtilega á óvart.“
Sigurður hefur vakið athygli fyrir áhrifarík vídjóverk og segir að aðdráttarafl miðilsins hafi strax gert vart við sig þegar hann var í námi. „Það var alltaf verið að ýta á okkur að skoða nýjar leiðir og opna á leiðirnar. Vídjóið hentaði mér ágætlega, ég gat tekið tónlist inn í vídjóið sem ég hafði unnið með áður og gat komið miklu fyrir í þessum miðli.“
Nýtt fyrirkomulag við valið
Síðastliðin þrjú skipti hefur Kynningarmiðstöð Íslenskrar myndlistar auglýst eftir tillögum með útfærðum hugmyndum og listamann út frá þeim. Í þetta sinn var ákveðið að hafa annan hátt á.
„Það var tekin ákvörðun um að hafa þetta öðruvísi, leita til fulltrúaráðs og Kynningarmiðstöðvarinnar og í rauninni fengnar tilnefningar á listamanni eða teymi eða sýningu,“ segir Ásdís Spanó formaður valnefndar. „Þetta ferli gekk vel fyrir sig. Fagráð kynningarmiðstöðvarinnar fór yfir innsendar tillögur og valdi síðan úr þessum hópi. Þegar við vorum að velja úr þessum tillögum fannst okkur skipta máli að við værum með fulltrúa íslenskrar samtímalistar, einhvern sem hefði unnið að eftirtektarverðum sýningaverkum og unnið að alþjóðlegum samstarfsverkefnum og ekki síðar að geta unnið viðamikil sýningarverkefni inn í óhefðbundnum rýmum jafnvel.“
Undirbúningur er þegar hafinn og fór Sigurður til Feneyja í síðasta mánuði til að kanna aðstæður. „Það var frábær ferð og kveikti fullt af hugmyndum og ótrúlega inspírerandi að koma þangað, gríðarlegt magn af frábærri myndlist. Ég er bara svakalega spenntur.“