Sigurður Ingi Jóhannsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, hefur ekkert heyrt frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni eftir formannskosninguna í gær. Hann segist hafa sent honum skilaboð en þeim hafi ekki verið svarað. Hann segist þó ekki eiga von á öðru en þeir muni ná saman og fara þá yfir stöðuna.
Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Þar sagði Sigurður Ingi meðal annars að það hefði auðvitað verið mjög gott ef Sigmundur Davíð hefði komið upp á svið eftir að úrslitin lágu fyrir og talað fyrir fullum sal. „Það hefði verið heppilegra,“ sagði Sigurður Ingi sem kvaðst þó ekki hafa tekið eftir þessu sjálfur.
Sigurður Ingi, sem hefur verið forsætisráðherra síðan í apríl eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér vegna Wintris-málsins, sagðist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að Sigmundur yrði áfram oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi. Hann hefði hlotið góða kosningu og flokkurinn þyrfti á öllu góðu fólk að halda.
Formaðurinn sagðist þó ekki hafa velt því fyrir sér hvernig hann myndi bregðast við því ef Sigmundur tæki þá ákvörðun að taka ekki sæti á listanum. „Hann hefur ekki gefið neitt út eftir gærdaginn,“ sagði Sigurður Ingi og viðurkenndi að það væri ágætt ef það fengjust einhver svör frá Sigmundi.
Sigurður Ingi var einnig spurður út í ummæli sem stuðningsmenn Sigmundar Davíðs hafa látið falla eftir að úrslitin lágu fyrir. Meðal annars þau sem Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, Formaður framsóknarfélagsins í Reykjavík, lét hafa eftir sér í viðtali á Útvarpi Sögu um að svindlað hefði verið í formannskjörinu.
Sigurður Ingi sagði að ummæli á borð við þessi væru ekki flokknum til framdráttar - hann hefði sjálfur haft samband við skrifstofu flokksins sem ekki hefði fengið neinar slíkar kvartanir inn á sitt borð. „Ég veit ekki hvað formaður framsóknarfélagsins er að fara með þessum yfirlýsingum sínum.“
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér að ofan.