„Ég vildi skoða og lýsa siðmenningunni utan frá, ekki sem manneskja heldur björn,“ segir Yoko Tawada höfundur bókarinnar Etýður í snjó þar sem þrjár kynslóðir þekktra ísbjarna segja sögu sína.
Ættmóðirin sleppur naumlega við útlegð í Síberíu og flýr til Þýskalands þar sem hún ritar æviminningar sínar. Toska, dóttir hennar, er hæfileikaríkur dansari í Austur-Berlín sem semur sirkusatriðið „Koss dauðans“ í draumi með þjálfara sínum. Knútur, sonur Tosku, elst upp í dýragarðinum í Berlín þar sem hann og Matthías, umsjónarmaður hans, tengjast sérstökum böndum.
„Bókin mín fjallar um þrjár kynslóðir ísbjarna. Í gegnum auga dýrsins lýsi ég Kalda stríðinu, endursameiningunni í Þýskalandi, umhverfismengun og innflytjendavandamálum. Þetta er nýtt sjónarhorn, ég vildi skoða og lýsa siðmenningunni utan frá, ekki sem manneskja heldur björn,“ segir Tawada. „Í fyrstu gæti þetta virst vera barnabók, því að birnirnir eru aðalpersónurnar en hún er það ekki. Ég held að börn geti alveg lesið hana en hún er ætluð fullorðnum.“
Ein persóna bókarinnar er ísbjörninn Knútur sem dvaldi um hríð í dýragarðinum í Berlín og heimurinn fylgdist grannt með. Knútur var fjögurra ára þegar hann drukknaði í garðinum en margir vildu meina að hann hafi verið haldinn mikilli streitu vegna aðstæðna í dýragarðinum. „Knútur var stjarna í Berlín. Kaflinn um hann lýsir lífi stjörnunnar, hvað það þýðir að vera á sviði og þurfa að bregðast við áhorfendum. Mamma hans var líka til í raunveruleikanum, hún var í sirkus í Austur-Þýskalandi, í sósíalismanum við allt önnur skilyrði og það var áhugavert að sjá muninn á Knút og Tosku móður hans,“ segir Tawada.
Etýður í snjó kom út hjá útgáfuhúsinu Angústúru í fyrra, kom upphaflega út á þýsku árið 2014 og hefur frá því komið út á fjölda tungumála. „Ég er mjög ánægð með bókina. Hún hefur verið þýdd á fjölda tungumála, en ég er ánægðust með þessa útgáfu. Þetta er snjóbók. Hún er ekki litrík heldur einföld og óhlutbundin. Aðeins í þessari þýðingu var titillinn, Etýður í snjó, þýddur orðrétt. Annars staðar þótti hann of vitsmunalegur, of óhlutbundinn og erfiður. Titillinn á ensku er til dæmis Minningar ísbjarnar sem er alltof ótvírætt fyrir minn smekk og svo er líka björn framan á kápunni,“ segir japanski höfundurinn Yoko Tawada.