Short Ride in a Fast Machine eftir John Adams. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi Daníel Bjarnason.


Árni Heimir Ingólfsson skrifar:

John Adams (f. 1947) hefur um áratuga skeið verið eitt kunnasta tónskáld Bandaríkjanna og er oft kenndur við naumhyggju eða mínímalisma. Meðal styttri hljómsveitarverka hans er Short Ride in a Fast Machine (Stutt ferð í hraðskreiðu farartæki) sem ber undirtitilinn „lúðragjall [fanfare] fyrir hljómsveit“. Adams hefur líkt verki sínu við upplifunina „þegar einhver býður þér far í frábærum sportbíl en þú sérð eftir því þegar hann er kominn af stað“.

Vinur Adams átti hraðskreiðan ítalskan fararskjóta og bauð honum í bílferð um það leyti sem hann hóf að smíða verkið. Adams segir ferðina bæði hafa verið ánægjulega og ógnvænlega, og að hann hafi varla verið búinn að jafna sig á henni þegar hann tók að setja fyrstu tónana á blað. Meðal helstu einkenna verksins eru síendurtekin slög á trékubb sem gefa því snaggaralegt yfirbragð. Adams segir annað einkenni vera að hin stærri og dýpri hljóðfæri hljómsveitarinnar – túba, kontrabassi, kontrafagott, málmblástursdeildin – þurfi að „dansa búggí“ kringum hin ósveigjanlegu slög trékubbsins. Það er ekki fyrr en í lok verksins, þegar kubburinn þagnar, að hinn eiginlegi lúðraþytur eða „fanfare“ losnar úr læðingi.