Það er nóg af rómantík og gleði í leiksýningu Þjóðleikhússins, Shakespeare verður ástfanginn, segir Brynhildur Björnsdóttir.
Brynhildur Björnsdóttir skrifar:
Leikritið Shakespeare verður ástfanginn er byggt á kvikmyndahandriti eftir Tom Stoppard og Marc Norman sem varð að kvikmynd sem vann til sjö Óskarsverðlauna árið 1998. Verkið sem Lee Hall lagar að sviði var frumsýnt á West End árið 2014 og hefur notið töluverðra vinsælda. Í Þjóðleikhúsinu er það Selma Björnsdóttir sem stýrir hópi listamanna í fallegri og hressilegri sýningu. Verkið gerist í London í kringum aldamótin 1600 og spinnur eins konar „fan fiction” í kringum þekkt fólk sem vitað er að var uppi á þeim tíma, eins og leikskáldið Kit Marlowe, Elísabetu fyrstu Englandsdrottingu og auðvitað fremsta leikskáld allra tíma, William Shakespeare. Í upphafi verksins er hann í vanda, illa gengur að skrifa leikritið um Rómeó og Ethel sjóræningjadóttur en hann er búinn að selja frumsýningarréttinn tveimur ólíkum leikhússtjórum sem báðir eiga mikið undir því að verkið fari á svið. Hann kynnist kaupmannsdótturinni Víólu sem er heilluð af leikhúsinu en neyðist til að dulbúa sig sem karlmann til að fá tækifæri til að stíga á svið. Þau Shakespeare og Víóla heillast hvort af öðru og við tekur flétta sem endar á frumsýningu á þekktasta verki Shakespeares, Rómeó og Júlíu og loforði um verkin sem á eftir komu. Þannig reynist Víóla Shakespeare skáldgyðja og ástarævintýri þeirra það sem gerði hann að þeim snillingi sem við þekkjum. Verkið fjallar einnig um ástina til leikhússins, nokkuð sem var Shakespeare hugleikið enda bregður leikhúsinu fyrir í mörgum verka hans, þekktustu dæmin vafalaust í Hamlet og Draumi á Jónsmessunótt.
Shakspeare verður ástfanginn er ekki þungavigtarverk. Í byrjun var eins og við værum komin í sextándu aldar rómantíska gamanmynd frá tíunda áratugnum. Sá létti og heillandi andi hélst alla sýninguna en fyrir vikið var ekkert pláss fyrir átök eða eða að kafa meira ofan í það sem var ekki eins skemmtilegt. Sem dæmi má nefna að staða kvenna á þessum tíma er miðlæg í verkinu og hugrekki og kraftur Víólu sem berst gegn straumnum smitandi og heillandi. Hið harmræna hlutskipti hennar er hins vegar að fá að ljóma eina kvöldstund og njóta eina nótt og gjalda fyrir það með lífi sínu, nokkuð sem hefði með öðrum áherslum í leikstjórn verið hægt að fara mun dýpra með án þess að það væri á kostnað léttleikans.
Leikstjórn Selmu Björnsdóttur bar þess skýr merki að hún er þaulvön að setja upp stórar sýningar á stóru sviði. Sviðið var vel nýtt og hvergi dauður punktur og allt utanumhald og tengingar milli listrænna pósta gengu vel upp. Það var kannski helst í vinnu með leikurum sem vantaði upp á en í sýningu með þessum áherslum er kannski ekki pláss fyrir mikla persónutúlkun.
Lára Jóhanna Jónsdóttir fór einstaklega fallega og skemmtilega með hlutverk Víólu sem var eins og skrifað fyrir hana þótt skautað væri fimlega hjá þeirri bugun sem örlög hennar hljóta að búa henni og Aron Már Ólafsson var vörpulegur Shakespeare en litlaus á köflum, einkum í lokin þar sem hann átti að hafa orðið fyrir lífsumbreytandi reynslu. Jóhann G. Jóhannsson var skemmtilega mjúkur og sjálfsöruggur sem Marlowe og Edda Björgvins frábær sem fóstran. Stefán Hallur var sannfærandi í hlutverki vonbiðils Víólu, hins óskemmtilega jarls af Wessex og Gói var mjög fyndinn í sínu hlutverki sem hinn örvæntingarfulli leikhússtjóri Henslow. Of langt mál er að telja upp alla leikara sýningarinnar en þeir stóðu sig vel í því að koma léttleikanum til skila.
Það er mjög algengt að listrænir stjórnendur Shakespeare-verka í nútímanum taki þau úr upprunalegu tímasamhengi sínu og noti búninga og leikmynd til að færa verkin til í tíma og rúmi og undirstrika þannig hversu sígild þau eru og boðskapurinn sammannlegur. Það er hinsvegar algjört lykilatriði að Shakespeare verður ástfanginn fái að halda sínu sextándu aldar yfirbragði og því er vel fylgt í þessari sýningu.
Leikmynd Finns Arnars Arnarssonar var einstaklega vel heppnuð og náði að fanga flestar hugmyndir um London þessa tíma á hringsviðinu, einkum var ferð á árabát vel útfærð sem og svalirnar sem urðu innblástur að frægasta atriði leiksögunnar. Þá voru svalirnar í Þjóðleikhúsinu nýttar sem leikrými sem undirstrikaði leikhúsið í leikhúsinu, enn ein tilvitnun í Shakespeare.
Búningar Maríu Ólafsdóttur voru litríkir og íburðarmiklir, hæfilega ýktir innan tímarammans til að hæfa rómantísku gamanyfirbragði sýningarinnar og lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar var einnig litrík og náði vel að skapa hughrif fyrir atriðin.
Tónlist þeirra bræðra Friðriks Dórs og Jóns Jónssona var falleg og styrkti kvikmyndaáhrifin og Karl Olgeirsson og hljómsveit skila sínu óaðfinnanlega. Aðkoma hinnar feykigóðu söngkonu Guðrúnar Ýrar Eyfjörð, GDRN, var stundum mjög skemmtilega útfærð eins og þegar hún og fiðluleikarinn Matthías Stefánsson stóðu eins og á súlum og voru hluti af leikmyndinni en svo fannst mér ekki alveg takast jafn vel til þegar hún gengur inn í leikritið eins úr öðrum heimi án sýnilegrar ástæðu eða samhengis og brýtur upp andrúmsloftið sem svo mikið er haft fyrir að spinna.
Leikrit Shakespeares voru ekki skrifuð með það að markmiði að verða sígild og því ber að varast að kynna þau til sögunnar með ryk aldanna á síðum sér. Sem slíkt er verkið mjög góður inngangur fyrir nútímann að Shakespeare og verkum hans. Það er fullt af tilvitnunum sem kannski ekki allir áhorfendur þekkja en gætu kannast við þegar þetta verk leiðir þá til að skoða fleiri verk hans með opnum hug. Ég var á sýningu með nokkrum fjölda unglinga sem virtust lifa sig af einlægni inn í sýninguna og hún ber öll merki þess að geta slegið í gegn hjá þeim aldurshópi sem einmitt er svo mikilvægt að læri að elska leikhúsið.
Mér fannst mjög gaman í leikhúsinu þessa kvöldstund en sýningin skilur kannski ekki mikið eftir sig hjá mér. Sem er synd af því að með örlitlum áherslubreytingum og skerpingum hefði vel verið hægt að leika á fleiri lútustrengi hjartans. En nóg var af rómantík og gleði. Og hver þarf ekki meira af því í lífið?