Sex manns hafa verið handteknir í Namibíu í dag í tengslum við Samherjaskjölin. Sexmenningarnir verða leiddir fyrir dómara á morgun. Þeir verða að öllum líkindum ákærðir fyrir spillingu.

„Þeir grunuðu voru handteknir nú í morgun. Og í þessum töluðu orðum eru þeir í haldi lögreglunnar. Og þeir mæta í réttinn í fyrramálið og þá verður þeim líklega birt ákæra,“ segir Paulus Noa, yfirmaður ACC, spillingarlögreglu Namibíu, í samtali við fréttastofu.

Þeir sem voru handteknir í dag voru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Bernhardt Esau, sem sagði af sér sem sjávarútvegsráðherra á sunnudaginn, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau sem jafnframt er frændi James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem einnig tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum.

Noa segir að þeir tveir fyrstnefndu hafi verið handteknir á búgarði í morgun.

„Já við náðum Sacky Shanghala og James Hatuikulipi; handtaka þeirra fór fram á búgarðinum. Hinir voru handteknir hér í Windhoek.“

Hver var ástæðan fyrir handtöku þeirra? Var það vegna spillingar?

„Já, ákærur um spillingu, en ég get ekki talið þær upp eins og er því það væri andstætt landslögum hér.“

Noa segir að hægt sé að halda mönnum í fangelsi í tvo sólarhringa án þess að þeir séu leiddir fyrir dómara.

„Hvort þeir verði látnir lausir gegn tryggingu kemur í ljós á morgun,“ segir Noa.