Er sálin heimakær eða víðförull ferðalangur? „Tilvistin er eilíf heimkoma, eins og að ganga saman eftir heimreið, án þess að færast nær, taktföst skref okkar eru endurtekin í sífellu,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson í hugleiðingu sinni um alþjóðlega hagkerfið.


Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

1.

„Þegar ég kom heim frá Myanmar þurfti ég að bíða í margar vikur eftir að sál mín fylgdi á eftir,“ sagði hún við mig. Ég fann hvernig þessi setning kom sér fyrir eins og könguló í horni huga míns. Hún hljómaði eins og fyrsta setningin í 20. aldar skáldsögu. Á milli okkar var vaffla, tveir gafflar og bláhvítir geislar haustsólarinnar. Allt í kring var gróðurinn í hamskiptum. Ég mændi í brún augun og reyndi að sjá hana fyrir mér, burðast heim með ferðatösku eftir langa flugferð, meðan sál hennar fór fótgangandi þessa sömu leið yfir fjöll og firnindi, höf og heimsálfur, ekki væntanleg fyrr en eftir nokkrar vikur.

Já, svona eru ferðalög, hugsaði ég. Maður stígur upp í flugvél, en það er eins og, já, sálin í manni verði eftir, einhvern veginn, og þess vegna taki það mann marga daga að aðlagast nýjum stað, nýrri menningu, nýju samfélagi. Blóðheitur líkaminn þýtur áfram á mörg hundruð kílómetra hraða en glær sálin verður eftir á jörðu niðri eins og í Tomma og Jenna-þætti, gengur mædd á eftir með allt sitt hafurtask og mætir ekki til leiks fyrr en löngu síðar, jafnvel þegar styttist í ferðalagið til baka.

Þá söng skáldið:

Að flögra eins og fugl um sali himins

með iPad Pro á öðru farrými.

Sér panta öl sem allan kvíða mýkir

og hlæja dátt að tárum liðins tíma.

En einhvers staðar fyrir aftan, niðri,

þreytt sálin dregur sína kerrufylli

af sorg og depurð sem ég aldrei flý.

– Hvert ferðalag er leit að ásýnd þinni.

2.

Það er talað um flugskömm. Hinn meðvitaði maður lifir í kristilegri sektarkennd yfir eigin lífsháttum. Þitt persónulega framlag til dómsdags; að prumpa hreykinn í stúkunni á Liverpool-leik í nóvemberrigningunni. Bangladesh sekkur, og síðan Flórída, en, ah, sjitt, This is Anfield. 

Hvað með að setja ekki bara spurningarmerki við ferðalög af umhverfisástæðum, heldur heimspekiástæðum? Draga ekki úr ferðalögum til þess að lina aðeins kraftinn í sinni eigin krossferð gegn heilsufari plánetunnar, heldur hætta einfaldlega algjörlega að ferðast, vegna þess að það sé ekki hollt sálinni heldur. Halda sig bara heima við, alltaf, taka upp meðvitaða forheimskun og þröngsýni, ljómandi af hamingju.

Heimskingjar hanga heima hjá sér, ekki satt? Það er víst þess vegna sem þeir eru heim-skir. 19. aldar transendentalistinn Ralph Waldo Emerson var hins vegar á öðru máli: „Sálin er ekki ferðalangur,“ skrifaði hann. „Vitringurinn heldur sig heima fyrir, og þegar nauðsyn eða skylda krefur hann um að yfirgefa heimili sitt, eða ferðast til annarra landa jafnvel, þá er hann samt ennþá heima hjá sér og þessi sendiboði visku og göfgi gerir öðru fólki ljóst með andlitssvipbrigðum sínum að hann heimsækir borgir og íbúa þeirra eins og þjóðhöfðingi, en ekki eins og boðflenna eða bryti.“ 

Emerson sló hins vegar þann varnagla að honum þætti ekkert að því að hinn heimakæri maður ferðaðist um jarðkúluna ef ferðalagið væri í þágu lista, lærdóms eða göfugra málefna, laus við þá ranghugmynd að hann muni rekast á eitthvað mikilfenglegra þar en heima hjá sér. „Ferðalagið er paradís fábjánans,“ skrifaði Emerson. „Sá sem ferðast í leit að afþreyingu, eða til þess að eignast eitthvað sem hann á ekki, ferðast í burtu frá sjálfum sér, og verður þannig gamall í æsku innan um gamla hluti.“

Ein af röksemdum Emersons er að ástæða þess að menning forn-Grikkja og forn-Egypta sé svo glæsileg og aðdáunarverð sé fyrst og fremst vegna þess að þeir voru, ja, heima hjá sér. Til þess að skapa mikilfenglega arfleið, fallegar byggingar og stórkostlegar hugmyndir á einhverjum stað, þá þarf fólkið sem býr þar, að byrja á því að vera þar, vera heima hjá sér, en ekki á ferðalagi. Heimsmenningin byrjar heima við.  

3.

Í síðustu viku fór fram eitthvað sem kallast samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum. Og hver var niðurstaðan þar? Jú, atvinnulífið má ekki vera feimið við að ræða þann efnahagslega ávinning sem hlýst af því að sýna náttúrunni smá miskunn. Já, það er um að gera að reyna að græða smá pening, engin ástæða til annars. Þetta var sem sagt með öðrum orðum samráðsvettvangur um status kvó. 

Ástæða þess að alþjóðlega hagkerfið er dómsdagsvél er nákvæmlega sú að það grundvallast á þeirri hugmyndafræði einni að hlutverk manna hér á jörð sé græða sem allra mestan pening óháð því hvaða beinu eða óbeinu afleiðingar það kann að hafa fyrir aðra en þann sem græðir. Af hverju segi ég að hagkerfið sé dómsdagsvél? Vegna þess að náttúran er ókeypis. Það er algjört grundvallaratriði. Hún er svo kurteis að rukka ekkert fyrir það að láta nauðga sér. Þetta er fyrsti hlekkur virðiskeðjunnar margfrægu. Og þegar þú ert með ókeypis náttúru og hagkerfi sem snýst um að skapa eins mikinn auð og hægt er úr þessari náttúru, algjörlega óháð öllu öðru, þá ertu með það sem mér finnst algjörlega réttlætanlegt að kalla dómsdagsvél.

4.

Íslenskur leiðsögumaður sem starfar og býr erlendis hefur sagt mér að ekkert jafnist á við blikið í augum samlanda hans þegar þeir koma saman í hópferð til útlanda. Það sé þessi einlæga lífsgleði, eftirvænting og þakklæti sem sé gjörsamlega engu líkt. Ahh, já. Útlönd. Við erum öll einhver annar í útlöndum. Að koma út í nafnleysið, þar sem bjórinn er ódýr og maður er ekki alkóhólisti og glæpamaður fyrir að sötra hann utandyra og fyrrverandi kærastan þín er ekki að busla í Laugardalslauginni og þú þekkir ekki starfsmanninn í apótekinu. Að vera umkringdur öllu og engu í hlýju frelsi vestanvindsins. Þetta er blik í augum sem segir: Núna má ég reyna að hafa gaman. Núna get ég reynt að hafa gaman. Eða eins og hljómsveitin múm sagði einu sinni eftirminnilega: Loksins erum við engin.

5.

Ég þekkti einu sinni strák sem var alltaf heima hjá sér. Eða þannig séð. Þetta var á þeim tíma sem maður hringdi heim til krakka til að spyrja eftir þeim, fá vini sína út í eina krónu eða fótbolta, og þá gerðist auðvitað reglulega að enginn svaraði, eða þá að sá eða sú sem maður spurði eftir, var ekki heima. Einhvern tímann veitti ég því athygli að þessi strákur var alltaf heima þegar ég hringdi. Það gerðist aldrei að hann væri ekki heima þegar ég tók upp símann. Þetta var jafnáreiðanlegt og sólarupprásin. Í mörg ár. „Sæll félagi, Dóri hérna, ertu með plön í kvöld? Við ætlum í bolta út í skóla?“ Ég fékk alltaf sama svarið. „Nei, ég er bara heima sko.“ „Kallinn er heima bara.“ „Ég er bara að dunda mér eitthvað heima?“ Hann var aldrei upptekinn. Þetta var manneskja sem leið alveg ofsalega vel heima hjá sér. Inni. Í friði. Með allt til alls. Ef ég hefði ekki hringt, þá hefði hann bara verið áfram heima.

Þetta varð með árunum að góðlátlegum brandara í vinahópnum, einhvers konar mannlýsingu: Manneskja sem finnst alveg ofsalega gott að vera heima hjá sér. Manneskja sem vill helst ekki vera neins staðar annars staðar. Stundum fæ ég skilaboð frá góðum vini sem hljóma svona: „Veistu hvar ég er?“ Og ég svara: „Heima?“, og fæ þá aftur svarið: „Já. Ég er heima. Veistu af hverju?“ og ég svara: „Af því þér finnst það svo gott.“ og fæ svarið: „Já. Ég er heima af því mér finnst svo svakalega gott að vera heima.“

6.

En sálin kom samt heim frá Myanmar. Á endanum. Hún skilaði sér eftir nokkrar vikur. Það er ekki eins og hún hafi orðið alveg eftir, leigt sér íbúð og fengið sér vinnu. Emerson hafði rangt fyrir sér. „Heldurðu að það geti verið að sálin sé ferðalangur eftir allt saman?“ sagði ég. „Málið sé bara að hún er dálítið hægfara.“ Meikaði það ekki sens. Sálin hefur verið til nokkuð lengi, en það var ekki fyrr en nýlega sem við fórum að skjóta henni milli heimshorna og menningarheima á nokkrum klukkutímum.

Við erum ferðalangar í lífi hvors annars. Tilvistin er eilíf heimkoma, eins og að ganga saman eftir heimreið, án þess að færast nær, taktföst skref okkar eru endurtekin í sífellu. Fætur þínir eru fjaðrir og ég breiði þegjandi úr draumi mínum eins og dökklbláu flaueli undir þeim. Þar ýfist hann og iðar. Eða nei reyndar tölum hreint út; draumur minn rennur eins og ódýrt sjampó niður fætur þína. Þú rennur, þú svífur, þú dansar, og ég bíð eftir því að þú dettir, því í falli þínu finn ég heimili mitt.

Að dreyma slíkan draum til einskis er,

að deila með þér vöfflu nægir mér.