Landhelgisgæslan hefur sent frá sér myndskeið þar sem TF-Líf sést ferja liðsmenn sérsveitar ríkislögreglustjóra um borð í grænlenska togarann Polar Nanoq. Eftir að sérsveitin kom um borð í togarann handtók hún tvo skipverja sem sitja nú í gæsluvarðhaldi, grunaðir um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur.

Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að veður hafi verið slæmt, vindhraði milli fjörutíu og fimmtíu hnútar og ölduhæð sex til átta metrar.  Þá hafi gengið á með dimmum éljum. Mikil hreyfing var á skipinu og því voru aðstæður til hífinga mjög erfiðar.

Mikil leynd hvíldi yfir aðgerðum sérsveitarinnar en hún lagði af stað frá flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli í hádeginu á miðvikudag en sama kvöld kom Polar Nanoq til hafnar í Hafnarfirði.

Þegar þyrlan sneri aftur til Reykjavíkur tæpum þremur klukkustundum seinna var hún keyrð inn í flugskýli Landhelgisgæslunnar til að ekki sæist hvort sérsveitin eða sigmaður vélarinnar væru enn um borð.