Selfoss er Íslandsmeistari karla í handbolta árið 2019. Liðið vann öruggan 35-25 sigur gegn Haukum á Selfossi í kvöld sem tryggði þeim titilinn.

Ljóst var fyrir leik kvöldsins að Selfoss myndi tryggja sér fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í sögunni með sigri. Þeir leiddu einvígið 2-1 eftir sigur á Ásvöllum í síðasta leik.

Gestirnir í liði Hauka byrjuðu betur er þeir komust 3-1 yfir. Selfoss skoraði hins vegar næstu fjögur mörk og breyttu stöðunni í 5-3 sér í vil eftir tæplega níu mínútna leik. Haukar jöfnuðu leikinn hins vegar á ný, 7-7, um miðjan fyrri hálfleik.

Selfyssingar voru þó skrefi á undan í fyrri hálfleiknum og þegar tæplega sex mínútur voru eftir kom Guðjón Baldur Ómarsson þeim þremur mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum, í stöðunni 11-8 fyrir Selfoss.

Selfyssingar létu kné fylgja kviði á lokakafla hálfleiksins og léku á als oddi. Haukar réðu illa við þá sem sýndi sig á stigatöflunni en staðan í hálfleik var 16-11 Selfyssingum í vil. Elvar Örn Jónsson fór fyrir Selfossi sóknarlega en hann skoraði sjö af sextán mörkum þeirra í fyrri hálfleiknum.

Haukar voru áfram í vandræðum með sterkt lið Selfoss í upphafi síðari hálfleiks. Þegar rúmar átta mínútur voru liðnar af hálfleiknum komust heimamenn í níu marka forystu, 23-14. Haukar voru þó ekki af baki dottnir og skoruðu næstu þrjú mörk til að minnka muninn í 23-17 tveimur mínútum síðar.

Haukar urðu fyrir áfalli um miðjan síðari hálfleikinn þegar Darri Aronsson fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot á Hauki Þrastarssyni úr liði Selfoss. Ekki skánaði staðan skömmu síðar þegar Selfoss náði níu marka forystu á ný, 26-17.

Selfyssingar stigu ekki af bensíngjöfinni og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með stæl. Þeir unnu að lokum tíu marka sigur, 35-25, og unnu þeir þar með einvígið 3-1. Selfoss er því Íslandsmeistari karla í handbolta í fyrsta sinn.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur á vellinum í kvöld með 11 mörk fyrir Selfoss. Alexander Már Egan skoraði fimm mörk úr jafn mörgum skotum. Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði sex mörk fyrir Hauka.