Sjö flugmönnum hefur verið sagt upp hjá flugfélaginu Air Iceland connect í sumar, þar af þremur í þessum mánuði. Framkvæmdastjóri félagsins segir að samhliða 10 prósenta fækkun farþega á þessu ári hafi þurft að fækka stöðugildum um sama hlutfall. 

Flugfélagið Air Iceland connect tilkynnti um fækkun flugferða fyrr í mánuðinum vegna minnkandi eftirspurnar í innanlandsflugi. Félagið hætti að fljúga milli Keflavíkur og Akureyrar. Þá á að fækka flugferðum um tvær á viku bæði til Egilsstaða og Ísafjarðar í vetur og selja tvær flugvélar af sex. 

„Það hefur þýtt uppsagnir. Það þýðir uppsagnir núna um þessi mánaðamót. Þetta eru þrír starfsmenn sem fá uppsögn núna, því miður. Þetta er hluti af því að við þurfum að aðlaga starfsemina að markaðsaðstæðum,“ segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

Þessir þrír starfsmenn eru allir flugmenn. Að auki var fjórum flugmönnum sagt upp í júní. Árni segir að félagið hafi fækkað stöðugildum um 10 prósent á þessu ári í samræmi við 10 prósenta fækkun farþega á árinu. Ekki eru áform um að segja fleirum upp. 

Samgönguráðherra sagði að ekki væri hægt að grípa inn í vanda flugfélagsins núna. Útfærsla á niðurgreiðslukerfi í innanlandsflugi, skoska leiðin, verði ekki tilbúin fyrr en á næsta ári. „Við teljum það ótvírætt jákvætt skref í að fjölga farþegum aftur,“ segir Árni jafnframt. 

Kemur til greina að lækka verðin, til að auka eftirspurn? „Við erum alltaf að reyna að aðlaga fargjöldin að eftirspurninni. Við höfum verið með mikið að tilboðum í gangi til að örva eftirspurnina, en það auðvitað hefur ákveðin takmörk.“