Ný viðlega við Dalvíkurhöfn var vígð í dag. Framkvæmdin kostar um hálfan milljarð króna. Sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar segir íbúa standa þétt við bakið á starfsstöð Samherja á Dalvík. Dalvíkingar segja of snemmt að dæma.
Austurgarður, ný viðlega við Dalvíkurhöfn var vígð við hátíðlega athöfn í dag. Verkefnið hefur staðið yfir í rúm 20 ár en það var ekki fyrr en verkið fór inn á samgönguáætlun árið 2016 sem framkvæmdir hófust fyrir alvöru.
Viðlegukantar hafa verið lengdir um 175 metra og gert er ráð fyrir að dýpi verði um 9 metrar. Þá stækkar athafnasvæði hafnarinnar töluvert og er nú orðið um 3500 fermetrar.
Framkvæmdin kostar um hálfan milljarð króna eða um 3 milljónir á lengdarmeter. Af því borgar ríkið um 60% og Dalvíkurbyggð um 40%.
Nú sé möguleiki að fá skemmtiferðaskip
Katrín Sigurjónsdóttir segir þessa nýju aðstöðu styrkja stöðu Dalvíkurhafnar til muna. Viðlegupláss sé aukið, því sé hægt að taka á móti fraktskipum og minni skemmtiferðaskipum. Þegar sé farið að ræða um möguleikann á að taka á móti skemmtiferðaskipum. Þá komist skip nú í heitt vatn á bryggjunni og meira rafmagn en áður, framkvæmdin sé því líka jákvætt skref í umhverfismálum.
Mikil virðing borin fyrir starfsstöð Samherja
Við athöfnina í dag voru leystar landfestar á togaranum Björgúlfi EA 312 sem er í eigu Samherja og gestum boðið að skoða glænýtt frystihús Samherja. Spurð að því hvort það hafi komið til greina að fresta vígslunni vegna atburða vikunnar segir hún það ekki hafa komið til greina.
„Fólk bara ber mjög mikla virðingu fyrir starfsstöð Samherja hér. Hún er byggð á mjög traustum grunni og hér er fólk sem hefur unnið til áratuga hjá fyrirtækinu. Og ég veit að fólk á Dalvík og íbúar standa þétt við bakið á sínu fólki hér í starfsstöðinni á Dalvík“ segir Katrín.
En þegar forsvarsmenn eru sakaðir um mútur og spillingu, heldurðu að það breyti engu? „Ég hef bara enga forsendu til að setja mig í einhvern dómstól í því máli“.
Fréttastofa tók fólk tali á Dalvík og á Austurlandi eins og sést á meðfylgjandi myndbandi.