Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir yfirlýsingu Höskuldar Þórhallssonar í dag hafa verið klaufalega - hún minni hann á það þegar þingmaðurinn kynnti óvænt samkomulag ríkisstjórnarflokkanna á tröppunum í þinghúsinu og að Lilja Alfreðsdóttir yrði ráðherra í ríkisstjórninni.
Þetta kom fram í viðtali við Þorstein í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Höskuldur sagði útspil Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að ekki þurfi að kjósa í haust, til þess fallið að sprengja stjórnarsamstarfið - framsóknarmenn hafi sett það sem skilyrði fyrir þingkosningum í haust að þeir fengju forsætisráðherrastólinn.
Þorsteinn segist ekki vita til þess að fleiri séu sammála Höskuldi - hann sé sá eini sem hafi komið fram opinberlega með þessa skoðun og hann hafi ekki heyrt í mörgum öðrum. „Hitt er svo annað mál að þingflokkurinn hefur staðið saman eftir atburðina í vor og það hefur verið samstaða í hópnum og hann hefur unnið vel saman allt kjörtímabilið.“
Þorsteinn segir að það standa, sem komið hafi fram hjá forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins að það verði kosið í haust að því gefnu að ákveðin mál verði kláruð. Loforðið um kosningar hangi á þessu. Hann segir að það sé vissulega eftirspurn eftir því hvenær nákvæmlega eigi að kjósa en bendir á að í þingrofsréttinum sé gert ráð fyrir 45 dögum og flokkarnir séu þegar farnir að undirbúa sig.
Þorsteinn gaf það út í dag að hann sæktist eftir oddvitasæti í Reykjavík norður en hann var fyrst kosinn á þing fyrir Suðvesturkjördæmi. Bæði Frosti Sigurjónsson og Sigrún Magnúsdóttir, sem voru í efstu sætunum í kjördæminu, hafa lýst því yfir að þau ætli ekki að fara fram.
Þorsteinn segir það einnig leika stórt hlutverk að hann hafi áhyggjur af höfuðborg Íslands. „Þar ganga hlutir ekki nógu vel - fjárhagur hennar, hvernig öll umgengni er og hvernig núverandi meirihluti fer fram. Ég óttast að borgin sé á hraðri niðurleið undir stjórn hans.“