Lítið hefur verið fjallað um mótmælin, sem hafa staðið yfir í Hong Kong í minnst tíu vikur, í kínverskum fjölmiðlum. Prófessor við Kínverska háskólann í Hong Kong segir umfjöllunina þar ekki fjölmiðlun heldur hreinan áróður. Kínversk stjórnvöld segja framferði mótmælenda jaðra við hryðjuverk.

Kveikjan að mótmælunum var umdeilt frumvarp sem hefði heimilað framsal frá sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong til Kína. Frumvarpið var tekið af dagskrá og Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnarinnar í Hong Kong, hefur sagt að frumvarpið sé dautt og það verði ekki reynt að blása í það lífi. Mótmælendur virðast ekki hafa trú á því. Ein af kröfum þeirra er enn að frumvarpið verði algjörlega og ótvírætt tekið til baka. Þá vilja mótmælendur að sett verði á fót nefnd sem rannsaki framferði lögreglu í mótmælunum og enn er krafist afsagnar Carrie Lam. 

Fimm þúsund mótmætlu á flugvellinum í dag

Öllu flugi til og frá Hong Kong var aflýst í dag. Yfir 160 flugferðir voru á áætlun þegar flugi var aflýst. Í tilkynningu segir að unnið sé að því að opna flugvöllinn aftur klukkan sex að morgni þriðjudags að staðartíma. Alþjóðaflugvöllurinn í Hong Kong er einn sá fjölfarnasti í heimi. Að sögn lögreglu voru um fimm þúsund mótmælendur á flugvellinum í dag. Þar vilja þeir vekja athygli ferðalanga á stöðu mála í Hong Kong. Skipulögð mótmæli hafa staðið yfir í 10 vikur og mótmælendur segja lögreglu beita ofbeldi í aðgerðum sínum. Í dag bauð lögreglan þingmönnum og fjölmiðlum að fylgjast með þegar hún æfði sig í því að beita háþrýstidælum til að ná stjórn á fjöldasamkomum.

Fang Kecheng, prófessor við Kínverska háskólann í Hong Kong segir í viðtali við breska blaðið Guardian að umfjöllun um mótmælin í Kína geti ekki talist fjölmiðlun heldur áróður. Aðeins ákveðinn hluti upplýsinga um stöðu mála sé settur fram og meira gert úr þeim. Iðulega sé vísað til mótmælanna sem óeirða og mótmælendur sagðir glæpa- og æsingamenn sem kyndi undir ofbeldi gegn lögreglu. Tónn stjórnvalda í Peking gagnvart mótmælunum virðist orðinn harðari. Talsmaður þeirra í málefnum Hong Kong sagði í dag að mótmælendur væru farnir að nota hættulegri verkfæri gegn lögreglu svo það jaðraði við hryðjuverk. Ástandið væri komið á alvarlegt stig.

Augljós stefnubreyting stjórnvalda

Einn þeirra sem segist var augljósa stefnubreytingu stjórnvalda í Kína síðustu daga er Ai Wei, kínverski listamaðurinn sem einnig er þekktur stjórnarandstæðingur. „Þeir eru orðnir hrottalegri eftir að Trump tók af tvímæli um að þetta væri mál Hong Kong og Kína. Að hann skipti sér ekki af þessu en það boðar ekki gott. Bandaríkin ættu að styðja við eigin gildi, styðja við frelsi og lýðræði og málfrelsi.“