Forsvarsmenn fyrirtækja við Hverfisgötuna eru óánægðir með framkvæmdir við götuna og segja að illa sé staðið að verki. Þá hafa sumir velt því fyrir sér hvort að sumarið sé rétti tíminn fyrir slíkar framkvæmdir en nokkrum veitingastöðum við götuna hefur verið lokað. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að verkið tefjist einungis um nokkra daga eða vikur.

Dagur var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Ásmundur Helgason, eigandi Gráa Kattarins var gestur í Morgunútvarpinu í gær þar sem hann gagnrýndi meðal annars lélega upplýsingagjöf borgarinnar og lítinn áhuga borgarfulltrúa á stöðu þeirra. Hann var ósáttur með tafir á verkinu og velti fram þeirri spurningu hvort að sumarið væri rétti tíminn fyrir svona framkvæmdir. 

Dagur segir að sumarið sé rétti tíminn fyrir framkvæmdir sem þessar. Það sé minnst bílaumferð á sumrin og ekkert frost í jörðu. Hann segir ýmsa hluti geta komið upp að vetrarlagi sem geta tafið svona verkefni. 

„Aðalatriðið er að hafa tímann sem stystan. Markmiðið var að það væri komin á umferð bíla fyrir menningarnótt en núna verður komin umferð gangandi fyrir menningarnótt. Bílarnir koma þá í september. Það var allan tímann gengið út frá því að lokafrágangur yrði ekki fyrr en í september. Þannig við erum að tala um daga og vikur sem eru að tefjast. Ég er ekki að gera lítið úr því eða áhrifunum á rekstraraðilana. Auðvitað eigum við að standa okkur vel í að upplýsa og viljum gera það. Það sem mér finnst skipta miklu máli núna er að þær nýju tímasetningar sem hafa verið gefnar út standist,“ segir Dagur.  

Dagur segir framkvæmdirnar í sumar heilt yfir hafa gengið mjög vel. Endurreisn miðborgarinnar hafi þó tekið aðeins í. Þá sé Hverfisgatan sérstakt verkefni því lítið sé vitað um lagnirnar sem þar liggja undir.