Tveir þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokks hafna því að möguleg ríkisstjórn þeirra með Sjálfstæðisflokki verði stjórn stöðnunar og varðstöðu um ríkjandi kerfi. Stjórnarsáttmáli flokkanna gæti komið á óvart í þeim efnum og jafnvel verði þar tekið á stjórnarskrármálum.
Rætt var um yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður í Silfrinu á RÚV í morgun. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði að yrði stjórnin að veruleiki sæi hún fyrir sér að hún yrði stjórn um kyrrstöðu og varnarveggi ríkjandi kerfa. Ari Trausti Guðmundsson, oddviti Vinstri grænna, í Suðurkjördæmi sagði það ekki alveg rétt að ekki væri verið að skoða neinar kerfisbreytingar.
„Það er verið að tala um SALEK-samkomulagið, það er verið að tala um bankakerfið – eða við skulum segja efnahagsstrúktúrinn og efnahagsuppbygginguna – það er verið að tala um breytingar í jafnréttismálum, það er verið að tala um loftslagsmál. Þetta eru allt saman hlutir sem varða kerfisbreytingar á vissan hátt,“ sagði Ari.
Ari sagðist ekki hafa séð stjórnarsáttmálann sem verið sé að vinna að en hann væri sannfærður um að í honum yrði fjallað um það sem hann kallaði dægurmálefni, það er úrbætur sem fólk hafi kallað eftir í velferðarmálum og innviðauppbyggingu, en einnig yrði horft til lengri framtíðar.
„Það verður líka tekið á ákveðnum málum, jafnvel stjórnarskránni, sem við getum allt saman kallað kerfisbreytingar.“
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, var sammála Ara. „Ég er svolítið hissa til dæmis á nýjum flokki eins og Viðreisn. Það eina sem kemur frá þeim þessa dagana er að setja einhvern svona merkimiða eða stimpil og tala um íhald, tala um stöðnun. Ég get bara sagt það að ég held að þessi stjórnarsáttmáli, ef þetta klárast allt og það gengur vel út af málefnum, að hann mun koma skemmtilega á óvart.“
Hér að neðan má horfa á Silfrið í heild sinni.