Sorpa vantreystir almenningi og vinnur gegn stefnu stærsta eiganda síns, þetta segir Dofri Hermannsson, framkvæmdastjóri Metanorku. Hann vonar að gas- og jarðgerðarstöð Sorpu líti aldrei dagsins ljós og vill meina að votvinnslustöð sem Metanorka vill reisa í Hvalfjarðarsveit sé mun umhverfisvænni.

Fólk of latt og óvandað

Munurinn á lausnunum felst einna helst í því að lausn Sorpu krefst þess ekki að heimilissorp sé flokkað á meðan lausn Metanorku gerir ráð fyrir að það sé gert. Dofri segir hreinni endurvinnsluefni verðmætari, það borgi sig því að flokka. Þá sýni rannsóknir að flokkun leiði til aukinnar meðvitundar meðal almennings. Hann segir Sorpu vinna gegn stærsta eiganda sínum, Reykjavíkurborg, sem lengi hafi haft þá stefnu að flokka rusl. Stefna Sorpu sé þveröfug við stefnu borgarinnar og feli í sér að fólk sé of óvandað og latt til að flokka ruslið sitt sjálft.

Kærðu samningsgerðina

Íslenska gámafélagið og Metanorka kærðu samningsgerð Sorpu við danska fyrirtækið Aikan til Kærunefndar útboðsmála á þeim grundvelli að hún stangaðist á við lög um opinber innkaup. Í október stöðvaði kærunefndin samningaviðræðurnar vegna þess að Sorpa taldist ekki hafa sýnt fram á að Gas- og jarðgerðarvinnsla væri eina lausnin sem uppfyllti kröfur. 

Auðveldara að draga tönn úr krókódíl

Dofri vonar að niðurstaða kærumálsins verði sú að gas- og jarðgerðarstöðin verði ekki byggð og aðrir möguleikar verði kannaðir til hlítar. Hann telur lausn Metanorku vera um milljarði ódýrari en lausn Sorpu sem ráðgert er að kosti tæpa 3 milljarða. Hann viti þó ekki nákvæmlega hvað standi í samningnum við Aikan eða hvaða skilyrði hafi verið sett. Hann segir skorta gegnsæi, það sé auðveldara að draga tönn úr krókódíl en að fá sjálfsagðar upplýsingar frá Sorpu. 

Bara opin ákvarðanataka

Björn H. Halldórsson forstjóri Sorpu segir það ekki stemma að litlu gagnsæi hafi verið fyrir að fara í stefnumótun. Það er búið að ákveða hvaða leið á að fara. Það var gert með samkomulagi eigenda í október í fyrra og það liggur alveg fyrir og í stjórn Sorpu sitja fulltrúar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þannig að það er ekkert annað en bara opin ákvarðanataka í þessu, segir hann.  

Ekki sögð mæta markmiðum Landsáætlunar
Minnisblað frá umhverfisráðgjafarfyrirtækinu Environice um kosti og galla gas- og jarðgerðarstöðvar sem tæki við öllu heimilissorpi styður málflutning Dofra. Þar kom fram að sameiginleg svæðisáætlun sveitarfélaga á Suður-, Vestur- og Suðvesturlandi samræmist ekki stefnu einstakra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í úrgangsmálum og gangi í vissum tilfellum þvert gegn henni. Niðurstaða þess er sú að gas- og jarðgerðarstöð mæti einungis einu markmiði af 14 í Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir frá 2013-2024, og þá aðeins að hluta. Fjórum markmiðum mæti hún ekki og óljóst sé hvort hún mæti átta markmiðum til viðbótar.

Enginn hvati til að minnka úrgang

Ástæðan er sögð sú að áhersla á flokkun sé í lágmarki, áformin feli ekki í sér hvata til þess að minnka úrgang og þau gætu dregið úr endurvinnslu á plasti og pappír. Þá kemur fram að gæði moltunnar yrðu meiri ef hún væri unnin úr lífrænum úrgangi og aukin fjárfesting í flokkun hljóti að leiða til sparnaðar í vinnslu. 

Önnur vinnsla en hjá Aikan

Dofri bendir á að sú vinnsla sem Aikan stendur að í Danmörku sé ólík þeirri vinnslu sem Sorpa ætlar að ráðast í því þar sé einungis unnið úr lífrænum úrgangi, ekki almennu heimilissorpi. Þar af leiðandi sé ekki ljóst hvort moltan frá Sorpu verði nothæf. Björn blæs á þær áhyggjur og segir miklar framfarir hafa orðið við hreinsun moltu, það verði lítið mál að koma moltunni út, þegar hafi verið samið við Landgræðsluna. Dofri benti einnig á að það þyrfti mikið magn stoðefnis til vinnslunnar. Í Danmörku er notað viðarkurl en hér væri það ekki hægt þar sem ársframleiðsla Skógræktar ríkisins er ekki nema þriðjungur þess sem þyrfti. Björn segir þetta ekki verða vandamál heldur. Matarsmitað plast, vikur, garðaúrgangur og hrossatað geti vel komið í staðinn. 

Hvatinn áfram til staðar

Björn segir hvatann til að flokka áfram verða til staðar. Sorpa taki við 30 úrgangsgerðum. Þá geti fólk áfram haft jarðgerðartunnu í garðinum og nýtt eigin moltu. Það minnki þann vanda sem Sorpa þurfi að leysa. Björn bendir á að sorphirða kosti líka. Ein tunna í viðbót fyrir alla höfuðborgarbúa kosti hálfan milljarð og það kosti hálfan milljarð til viðbótar að þjónusta hana á hverju ári. Björn segir gas- og jarðgerðarstöðina munu stuðla að allt að hundrað prósent endurvinnslu frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu. Búið sé að skoða margar tæknilegar lausnir og helsti kostur þeirrar aðferðar sem Sorpa ætli að nota sé að hún leysi allt vandamálið. Oft sé misskilningur uppi um hvað flokkist sem lífrænn úrgangur. Lífrænn úrgangur samanstandi af fleiru en matarleifum svo sem kattarsandi, dömubindum, mold og ryksugupokum. Þessi úrgangur þurfi að fara eitthvað. 

Ekki eina sorpmeðhöndlunarfélagið

Dofri segir votvinnslukerfið ekki gera ráð fyrir fullkominni flokkun. Það flokki til dæmis og skoli það plast sem slæðist með. Þá yrði ólífrænum úrgangi komið í farveg. Sorpa sé ekki eina sorpmeðhöndlunarfélagið á höfuðborgarsvæðinu og Gámaþjónustan og Íslenska gámafélagið hafi ólíkt Sorpu verið leiðandi í þróun sorpmála. 

Mannvit ráðlagði Aikan-vinnslu og votvinnslu 

Verkfræðifyrirtækið Mannvit tók að sér að gera úttekt á ólíkum tæknilausnum fyrir Sorpu. Úttektin var uppfærð í apríl á þessu ári. Þar kemur fram að Aikan-aðferðin sé raunhæfasti kosturinn til að vinna metan og moltu úr blönduðum heimilisúrgangi. Votvinnsla þurfi mun einsleitari úrgang. Lokaniðurstaðan var sú að hagkvæmasti kosturinn væri Aikan-stöð þar sem blandað sorp yrði meðhöndlað og svo lítil votvinnsla til hliðar, þannig yrði stöðugt framboð af metani tryggt og möguleikar Sorpu á að taka við fljótandi lífrænum úrgangi auknir.