Skurðlæknirinn Paolo Macchiarini segir að plastbarkaígræðsla hafi verið varaáætlun við uppskurð á Andemariam Beyene. Hann hafnar því að hafa blekkt íslenskan lækni í aðdraganda aðgerðarinnar.

Fyrsti plastbarkaþeginn, Andemariam Beyene, var sendur frá Íslandi á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi vegna krabbameinsæxlis í barka. Læknar á Íslandi og á krabbameinsdeild eins fremsta háskólasjúkrahúss í Bandaríkjunum, töldu einungis líknandi meðferð í boði.

Neitar því að hafa blekkt Tómas

Tómas Guðbjartsson, læknir Andemariams, sagði í svörum til íslenskrar nefndar, sem rannsakaði þátt íslenskra heilbrigðisstarfsmanna í plastbarkamálinu, að Maccharini hefði blekkt sig, og að hann hefði ekki vitað að til stæði að græða plastbarka í Andemariam, fyrr en eftir að hann var kominn út til Svíþjóðar. Þessu hafnar Macchiarini. „Ég bað Tómas um allar nauðsynlegar mælingar á barkanum, svo hægt væri að gera ígræðslu, en það var alltaf plan B. Tómas vissi vel að við gætum reynt að fjarlægja æxlið og græða barkann saman, en ef það gengi ekki þá  þyrftum við að gera eitthvað annað,“ segir Macchiarini.

Macchiarini segir að upphaflega hafi ekki staðið til að græða plastbarka í Andemariam. „Ég var ekki fyrifram búin að útiloka neina aðgerð.“

Íslenska nefndin bendir á að í sjúkraskrá Andemariams frá Karólínska sé gengið út frá því að hann sé innritaður til mats á því hvort hægt væri að græða í hann plastbarka. Þetta telur nefndin benda til þess að það hafi alltaf staðið til.

Höfðu ekki samband við Macchiarini

Nefndin byggði rannsókn sína að miklu leyti á samtímaheimildum, svo sem tölvupóstum og sjúkraskýrslum. Ekki var talin þörf á að leita svara hjá Macchiarini, þar sem rannsóknin sneri að þætti íslensku læknanna. Þetta gagnrýnir Macchiarini. „Þar sem nefndin er að rannsaka aðgerð þar sem ég var yfirskurðlæknir, þá finndist mér rétt að fá tækifæri á að tjá mig eða svara einhverjum spurningum,“ segir Macchiarini. 

Rætt er við Macchiarini og farið yfir plastbarkamálið í Kveik í kvöld.