Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, segir að ásökun um kynferðislega áreitni í veislu í fyrrasumar hafi verið sviðsett. Jón Baldvin var gestur Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfrinu í dag.

Hægt er að horfa á viðtalið við Jón Baldvin í spilaranum hér að ofan. Þetta er fyrsta viðtalið sem hann veitir frá því að konur stigu fram í janúar og sökuðu hann um kynferðislega áreitni.

Konur ásaka Jón Baldvin

Jón Baldvin var utanríkisráðherra árin 1988 til 1995. Hann varð svo sendiherra í Bandaríkjunum 1998 til 2002 og síðan í Finnlandi 2002-2005. Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um frásagnir kvenna af ósæmilegri hegðun Jóns Baldvins og áreitni. Fjöldi kvenna hefur gengið í metoo-hóp á Facebook þar sem fjallað er um Jón Baldvin. Í hópnum eru þolendur, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk.

Fjórar konur sögðu í viðtali við Stundina í janúar að Jón Baldvin hefði áreitt þær kynferðislega. Tvær þeirra voru nemendur hans í Hagaskóla en hinar tvær tengjast honum fjölskyldu- eða vinaböndum. Síðan hafa fleiri konur stigið fram. Elstu frásagnirnar eru frá sjöunda áratugnum og sú nýjasta frá því í fyrra.

Síðast í veislu á Spáni

Ein þeirra kvenna sem stigu fram í janúar er Carmen Jóhannsdóttir. Hún sagðist hafa farið með móður sinni og þrettán ára systur í heimsókn til Jóns Baldvins og Bryndísar Schram eiginkonu hans, á heimili þeirra á Spáni. Carmen segir að í síðbúnum hádegisverði hefði Jón Baldvin farið að þukla á henni þegar hún var að skenkja í glös.

Jón Baldvin segir, í viðtalinu í Silfrinu í dag, að þetta sé ósönn saga. „Veislan á þakinu var sviðsett. Hún er ósönn,“ segir hann.

Hvað meinarðu með „sviðsett“?

„Ég meina það að það getur ekkert annað verið að baki þessari heimsókn heldur en að setja þetta á svið. Vegna þess að þetta er ósatt. Það var engin snerting, ekki neitt.“

Ertu þá að meina það að móðirin hafi mætt þarna með dóttur sína og sigað henni á þig til þess að geta síðan sakað þig um kynferðislega áreitni?

„Það er engin önnur skýring til á því hvers vegna þær koma þarna [...] það var engin kynferðisleg áreitni.“

Hvers vegna ættu þessar konur að gera þetta sem þú ert að lýsa?

„Það er ekki mitt að skýra það, en það er hópur í kringum Aldísi [dóttur Jóns Baldvins] sem vill vitna með henni. Ef það voru fyrndar sakir þá er kannski hægt að búa til eina nýja.“