Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi ráðherra og sendiherra, segir föður sinn hafa nýtt bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Með því hafi hann misnotað stöðu sína sem sendiherra til þess að reka persónuleg erindi. Aldís segir frá þessu í samtali í við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.

Jón Baldvin var utanríkisráðherra árin 1988 til 1995. Hann varð svo sendiherra í Bandaríkjunum 1998 til 2002 og síðan í Finnlandi 2002-2005. Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um frásagnir kvenna af ósæmilegri hegðun Jóns Baldvins og áreitni. Elstu sögurnar eru um 50 ára en þær nýjustu frá því í fyrra. Fjöldi kvenna hefur gengið í #metoo hóp á Facebook þar sem fjallað erum Jón Baldvin. Í hópnum eru þolendur, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk.

Aldís segist hafa gengið á föður sinn árið 1992 vegna kynferðisbrota eftir að gömul skólasystir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Aldís telur að sá fundur hafi orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.

„Hann gat bara þaðan í frá, fyrir hann þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherrann, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin. Umsvifalaust er ég í járnum farið með mig upp á geðdeild, ég fæ ekki viðtal og það er skrautlegt að lesa þessar yfirlýsingar geðlækna. Það er um einhverjar ímyndanir mínar og ranghugmyndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ segir Aldís.

Hún fullyrðir að Jón Baldvin hafi getað sem ráðherra og síðar sendiherra sent bréf til dómsmálaráðuneytisins til þess að hún yrði nauðungarvistuð. Morgunútvarpið hefur bréf þessa efnis undir höndum. Ein beiðni er rituð á bréfsefni sendiráðsins í Washington og í öðrum tilvikum undirritar hann bréfin sem sendiherra.

Aldís nefnir atvik sem átti sér stað árið 1998. Þá hafi lögregla brotið sér leið inn á heimili hennar ásamt lækni og ættingja hennar, að því er virðist að nauðsynjalausu, enda yfirgáfu læknir og lögregla húsnæðið samkvæmt sömu lögregluskýrslu.

„En viti menn, sem ég vissi ekki fyrr en ég las lögreglugögn, að aðferð þessi kallast aðstoð við erlent sendiráð, samkvæmt lögreglugögnum,“ segir Aldís.

Hægt er að hlusta á viðtal Morgunútvarpsins við Aldísi í spilaranum hér að ofan.

Uppfært kl. 11:03 - Upphaflega sagði að elstu sögurnar um Jón Baldvin í #metoo-hópnum hafi verið um 30 ára gamlar, en hið rétta er að þær eru um 50 ára gamlar.