Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist telja augljóst að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafi hvergi farið út fyrir eðlileg mörk í heimsókn sinni til Kína. Hann segir ekkert óeðlilegt að fulltrúar Orku Energy hafi verið með í för.

Illugi hefur verið gagnrýndur fyrir að tala máli Orku Energy þegar hann fór til Kína í embættiserindum síðasta vetur. Síðar kom í ljós að Illugi hefði selt stjórnarformanninum íbúð sína og leigt hana af honum. Illugi hefur síðar lýst stjórnarformanninum sem nánum vini sínum.

Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttamaður spurði Bjarna í dag út í málefni Illuga og spurði hvort hann teldi eðlilegt að þingmaður þiggi vinagreiða frá góðum félaga sínum og fyrirtæki og tali síðan máli hans í opinberri heimsókn. Bjarni sagði að það hafði verið sýnt fram á með dæmum að Illugi hefði gert nákvæmlega það sama og aðrir ráðherrar hefðu gert í heimsóknum til Kína.

„Ég tel alveg augljóst að hann hafi hvergi farið út fyrir það sem eðlilegt er í því að koma fyrirtækinu á framfæri eða neitt slíkt í þessari heimsókn sinni til Kína. Það er aðalatriði þessa máls," sagði Bjarni. „Þetta var svo sjálfsagður hluti af dagskránni að ég tel að það hafi ekki hvarflað að honum og það myndi ekki hvarfla að mér að það væri sérstök ástæða fyrir því að fyrirtækið fengi að vera með í þessari heimsókn að hann þekkti viðkomandi [stjórnarformann]. Þvert á móti hafði ekkert slíkt þurft til að koma þegar aðrir ráðherrar voru við sambærilegar aðstæður. Þetta verður ekki mikið augljósara.“

Viðtalið um Illuga í heild sinni er í spilaranum hér að ofan.