Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í fjármálaráðuneytinu fyrr í dag. Í nýja frumvarpinu verður tekjuskattur einstaklinga lækkaður hraðar, skattþrepin verða þrjú og lægsta skattþrepið rúmlega 31 prósent.

Um áramótin munu nýir umhverfisskattar taka gildi og eldsneyti, tóbak og áfengi hækka um áramótin. Bjarni ræddi fjármálafrumvarpið í kvöldfréttum sjónvarps. Hann segir þriggja þrepa tekjuskattskerfið ekki stríða gegn áherslum Sjálfstæðisflokksins. Það sem standi upp úr í fjármálafrumvarpinu séu skattalækkanir. 

„Um tíu prósent af öllum tekjum í tekjuskattskerfinu eru gefnar í skattalækkanir,“ segir Bjarni en ástæðan að baki því er að nýja lægsta þrepið. Vinnumarkaðurinn hafi lagt áherslu á að við ríkisstjórnin næði tiltekinni skattalækkun fyrir tekjulægstu hópana og það var ekki fjármagnað með öðrum hætti en að skapa nýtt þrep. „Ég er fyrst og fremst ánægður með það að við náum skattalækkun fyrir alla í þessari aðgerð og það munar verulega um hana, sérstaklega fyrir þá sem að eru lægri í tekjum."

Ekki allir ánægðir með nýtt frumvarp

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir að það sé margt gott í fjárlagafrumvarpinu en hún hefði viljað sjá róttækari skattabreytingar. Að hennar mati sé ákveðið metnaðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað innviðafjárfestingar séu lágar.

Oddný Harðardóttur, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur í sama streng en hún segir að Samfylkingin hafi harðlega gagnrýnt áætlunina sem frumvarpið byggir á og hafi lagt fram breytingatillögur. Að þeirra mati hefði mátt leggja aukið fjármagn til loftslagsmála, skóla og húsnæðismála, svo dæmi séu tekin. Útfærsla ríkisstjórnarinnar á skattabreytingunni sé skárri. Það sé þó skrýtin forgangsröðun að ekki skuli vera gerð krafa til þeirra sem nutu uppsveiflunnar að leggja meiri til samfélagsins í niðursveiflunni.

Alls engin kreppa

Bjarni segir að vissulega komi sitt af hvoru tagi fram í gagnrýninni. Að hans mati ætti það að koma jákvætt á óvart að hvenær tekjuskattarnir lækka og að þeir séu að lækka hraðar en upphaflega var gert ráð fyrir. Ábendingarnar komi ekki á óvart en það sem kemur hins vegar á óvart sé að fólk telji að það sé einhvers konar kreppa til staðar. „Við erum ekki í neinni kreppu, við erum í góðu jafnvægi með hagkerfið.“

Hægt er að horfa á fréttina í spilaranum hér að ofan.