Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir að fullyrðingar Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna, um að Ísland hafi hafnað því að taka þátt í fjárfestingaáætlun Kínverja, Belti og braut, séu meinfýsinn rógburður. Áætlunin sé vettvangur fyrir alþjóðasamvinnu.

Pence sagði á blaðamannafundi í gær að bandarísk stjórnvöld væru þakklát fyrir þá afstöðu sem Íslendingar hefðu tekið þegar þeir hefðu hafnað samgöngufjárfestingum Kína á Íslandi. Þar vísaði hann til innviða- og fjárfestingaáætlunarinnar „Belti og braut“ sem Kínverjar hafa staðið fyrir undanfarin ár, og miðar að því að efla samgöngur til og frá Kína.  

Jin segist ráða það af orðum bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra að íslensk stjórnvöld hafi ekki tekið endanlega ákvörðun um þátttöku. Hann er ósáttur við þær fullyrðingar sem Pence setti fram í gær um Belti og braut. 

„Ég hef tekið eftir ummælum Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, meðan á heimsókn hans til Íslands stóð í gær. Ég verð að segja að hann hafi ekki haldið aftur af sér við að halda fram meinfýsnum rógburði í garð Kína og halda fram þeirri falsfrétt að Ísland hafi hafnað þátttöku í verkefninu Belti og braut. Íslenskir stjórnmálamenn eru nú þegar búnir að hrekja þau orð.“ 

Jin segir að áætlunin sé vettvangur alþjóðasamvinnu, sem Kína leggi til og hafi fengið góð viðbrögð á alþjóðavettvangi. „Þetta er ekki ný útgáfa Marshall-áætlunar með hernaðarlegum tilgangi. Belti og braut heldur á lofti áherslum um víðtækt samráð, sameiginlegt framlag og að þátttakendur njóti góðs af.“

Áhersla sé lögð á innviði, tengingar og óhindruð viðskipti og fleira. „Við teljum að Belti og braut hafi skapað ný tækifæri til þess að mynda tvíhliða tengsl milli Kína og Íslands. Við trúum því einlæglega að íslensk stjórnvöld muni taka rétta ákvörðun í þessu máli.“ 

Jin segist ætla að koma athugasemdum varðandi orð Pence á framfæri við íslensk stjórnvöld. „Auðvitað erum við algjörlega á móti ummælum Pence varaforseta og teljum að þessar ásakanir eða falsfréttir séu staðlausar og að þeim sé sérstaklega ætlað að trufla samband Íslands og Kína.“

Hægt er að horfa á sjónvarpsfrétt um málið í spilaranum hér fyrir ofan.