„Þetta er klassískt stef, hinir eldri hafa alltaf áhyggjur af hinum yngri. Ég get ekki sagt ykkur neinar fréttir nema engar fréttir,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði, um umræðuna sem skapaðist vegna framkomu Auðar á Tónaflóði.

Þar var það helst flutningur Auðar á laginu „Freðinn“ sem fór fyrir brjóstið á fólki og ýmsir töldu ekki við hæfi að sungið væri um vímuefnaneyslu á fjölskylduskemmtun sem væri sjónvarpað á RÚV. Arnar Eggert sagði í Morgunútvarpinu af og frá að Auður tali fyrir vímuefnaneyslu og mikilvægt sé að rýna í samhengi. „Málið er það að þessi plata Auðar heitir Afsakanir sem segir nú ýmislegt. Ef fólk hlustar á plötuna og þetta lag er hann að gera upp ákveðna hluti, taka fyrir jákvæða og neikvæða hluti, segja frá hvernig ungt fólk berst um í samfélaginu. Lagið er til algjörrar fyrirmyndar og til eftirbreytni að RÚV hafi sýnt frá þessum listamanni.“

Arnar telur að ungt fólk tengi við texta Auðar. „Platan er ákveðið ferðalag, þar sem hann fer úr rugli í jafnvel einhverja bjartari tíma. Að því leytinu til er þetta jákvætt.“ Það hvað þetta varð að stóru máli sé lýsandi fyrir hvað Ísland sé lítið samfélag. „Ef það fer einhver á stað sem er sæmilega tengdur á samfélagsmiðlum virðist allt landið fylgja eftir, það tekur svona hálfan sólarhring.“ Þá vill Arnar meina að þetta sé angi af stærri umræðu um skaðleg áhrif lista og afþreyingar á ungmenni, umræðu sem sé yfirleitt á miklum villigötum. „Tengslin á milli þess að spila tölvuleiki og fara út og myrða fólk eru óveruleg ef einhver. Þetta er hlægilegt. Ef það er eitthvað sem ýtir fólki út í eiturlyfjaneyslu er það misskipting í samfélaginu og stjórn landanna sem er einmitt í höndum fullorðins fólks.“

Arnar telur þó að umræða af þessu toga sé óumflýjanleg og eigi eftir að koma upp aftur og aftur. „Þetta gerist alltaf, mun alltaf gerast. Við sem erum eldri erum óörugg, okkur er stuggur af fólkinu sem er að gera eitthvað nýtt og ýta á einhverja takka. Þá fer þessi sama ræða af stað.“

Rætt var við Arnar Eggert Thoroddsen í Morgunútvarpinu.