Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, segir dapurt að íslensk fyrirtæki taki upp ensk heiti og noti ensku í auknum mæli til markaðssetningar. Hann segist til að mynda ekki skilja hvers vegna hinu rótgróna nafni, Flugfélag Íslands, var skipt út fyrir Air Iceland Connect fyrr í sumar.
„Mér finnst það mjög dapurt. Ég sé núna auglýsingar á einhverri verslun sem er að fara að opna. Það er enska sem tröllríður þar, eitthvert stærðarinnar skilti á Lækjartorgi. Mér finnst þetta dapurt. Vegna þess að það er ósköp einfalt að við eigum að nota íslensku til alls. Við eigum orð á íslensku yfir alla mögulega hluti. Ég bara segi það alveg fullum fetum að mér finnst það bara dapurt þegar við erum að lenda í svona aðstöðu eins og með Flugfélag Íslands. Ég hef ekki náð því almennilega hvers vegna menn þurfa að fara þessa leið," sagði Kristján í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag.
Hann segir að það sama gildi um fyrirtæki í miðborg Reykjavíkur sem kynna sig að mestu eða öllu leyti á ensku.
„Mér finnst þetta svona frekar slakt, bara svo ég láti nú vaða. Ég meina, útlendingar, erlendir ferðamenn, eru að koma hingað til að upplifa Ísland. Hluti af Íslandi er að geta boðið erlendu fólki upp á það sem íslenskt er. Og ef að málið okkar er ekki gjaldgengt í þeirri upplifun, þá spyr ég: Hvað eru menn að gagga þarna þegar þeir eru að reyna að berja saman einhverja texta á erlendu máli?" segir Kristján.
Ekki kerfið sem ræður
Kristján var í viðtali um stöðu íslenskunnar í nútímasamfélagi í Síðdegisútvarpinu.
„Mér líður eins og hún sé sterk. Við tölum að vísu ekki sama mál í dag eins og við töluðum fyrir fimm eða tíu árum. Við erum alltaf að búa til ný og ný orð. Þegar ég segi að hún sé sterk, þá ræðst það mat mitt á því hvernig maður skynjar áhuga fólks á því að standa saman um það að tala íslenskt mál,“ sagði Kristján.
„Það er ekki kerfið sem ræður því hvort mál lifa eða deyja. Það eru fyrst og fremst við sem notum málið, burt séð frá því hvað stjórnmálamenn eða embættismenn eru að fjasa á degi hverjum,“ sagði Kristján.
Erfiður og sár raunveruleiki
Hann var einnig spurður út í dvínandi bóksölu á Íslandi, en sala bóka hefur dregist saman um 43% síðan árið 2010.
„Út frá bókinni sem slíkri þá er það áhyggjuefni. Ég held að við lesum ekkert endilega minna í dag heldur en við gerðum árið 2008. Við erum bara að lesa aðra texta í öðru formi heldur en á bók. Tökum bara sem dæmi textann sem er skrifaður á samskiptamiðla," segir hann en viðurkennir þó að það sé dálítið annars eðlis en að lesa ritstýrða bók.
„Vandinn sem við stöndum frammi fyrir varðandi bókina er sá að við erum að kaupa minna af bókum. Það er hinn erfiði og sári raunveruleiki sem útgáfan býr við og þarf að horfast í augu við. Ég held að það sé ekkert auðvelt að breyta þeirri staðreynd. Það er ekkert eitt töfrabragð sem greiðir úr þeirri stöðu sisona," segir Kristján.
Hann viðurkennir að það gæti hjálpað að lækka virðisaukaskatt á bækur. „En ég er ekkert viss um það að það eitt ráði því með hvaða hætti bókaútgáfan, semsagt salan þróist. Það eru miklu fleiri samverkandi þættir sem vega að bókinni heldur en bara þetta eina tiltekna atriði," segir Kristján. Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum hér að ofan.