Fyrr í vikunni kynnti BL, í samstarfi við Lykil fjármögnun, lán á 3,95 prósent föstum, óverðtryggðum vöxtum. Forstjóri Brimborgar segir lánin sjónhverfingu því ekki sé verið að lækka vexti heldur færa afslátt af bílaverði. Auglýsing sem BL birti í vikunni brýtur í bága við réttmæta viðskiptahætti að hans mati.

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, var gestur í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Að hans sögn svipar þessum lánum til vaxtalausra lána sem voru kynnt árið 2014. Lánin séu ákveðin sjónhverfing. „Það er ekki verið að lækka vexti heldur færa hluta af afslætti sem oft er gefinn af bílverði yfir til Lykils fjármögnunarfélags og verið að lækka vextina þannig,“ segir Egill.

Hann segir BL setja 3,95 prósent nafnvexti á skuldabréf og selja Lykli þau síðan með afföllum. „Afslátturinn sem þeir hefðu mögulega gefið af nýja bílnum er notaður til að fjármagna þessi afföll,“ segir Egill. Þetta sé sama fyrirkomulag og við vaxtalausu lánin árið 2014. Hann segist hafa kannað málið og rætt við sölumann hjá BL og fengið þau svör að þeir sem kaupa bíl á þessum lánskjörum fái ekki afslátt en þeir sem kaupa bíl með hefðbundnu bílaláni fái hins vegar afslátt. 

Auglýsing brýtur lög um réttmæta viðskiptahætti

Þá segir Egill að auglýsing BL um lánin brjóti gegn réttmætum viðskiptaháttum. „Þeir voru með auglýsingu daginn eftir að þetta var kynnt og í raun brýtur hún í bága við lög um réttmæta viðskiptahætti því þeir eru að bera saman þessa svokölluðu kjaravexti við þessi hefðbundnu bílalán en þeir setja bílverðið það sama í báðum tilvikum,“ segir Egill. „Þannig ef þú hefðir fengið 200.000 króna afslátt, sem þeir sjálfir hafa verið að auglýsa fram að þessu, þá er hefðbundna lánið ódýrara af því að þú borgar meira fyrir bílinn þá verður höfuðstóll lánsins hærri. Þetta er í raun bara tilfærsla, þetta er sjónhverfing.“

Egill segir að Neytendastofa þurfi að koma að málinu og gera athugasemdir við auglýsinguna því hún standist ekki lög um réttmæta viðskiptahætti. Að hans mati dansi BL á brúninni í auglýsingunni og það hefði verið eðlilegast að segja í henni að ef hefðbundið lán væri tekið hefði verið afsláttur af verði bílsins. 

Í þættinum var einnig rætt um Félag eldri borgara og íbúðir félagsins í Árskógum, orkuskipti og Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hlusta má á Vikulokin í heild í spilaranum hér að ofan.