Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögfræðingur Báru Halldórsdóttur, segir niðurstöðu Persónuverndar ekki koma að óvart. Þetta hafi verið líklegasta niðurstaðan.
Tvennt hafi vakið athygli hennar varðandi niðurstöðuna. Annars vegar hversu vandaður úrskurður Persónuverndar var, þeir hafi gefið aðilum góðan kost á að tjá sig. Þá hafi Persónuvernd farið vel yfir innlend dómafordæmi áður en þau kváðu upp niðurstöðu sína.
„Umbjóðandi minn er nokkuð sáttur og reiðubúin að eyða upptökunum,“ segir Auður Tinna. Hún segir Báru vilja aukna vernd fyrir uppljóstrara, það hafi reynt lítið á það í þessu máli.
Auður Tinna segir málið hafa verið Báru þungbært og hún hafi beðist undan að vera í fjölmiðlum í dag. Þá sé Bára orðin þreytt og veik vegna málsins og þær vonist til að þetta séu endalok þess.
Stjórn Persónuverndar komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum í dag að Bára Halldórsdóttir hefði brotið persónuverndarlög.
Þess má geta að þeir þingmenn Miðflokksins sem málið varðar hafa ekki viljað veita viðtal vegna málsins í kvöld.