Lögmaður Félags eldri borgara, Daði Bjarnason, segir að ekki sé hægt að afhenda íbúðir í Árskógum nema viðbótargjald verði greitt. Félagið hefur fengið vikufrest til þess að taka til varna í málinu í héraðsdómi. Lögmaður tveggja íbúa segir að það breyti engu um þróun málsins að félagið hafi í gær boðið afslátt af kröfum sem séu ólögmætar.

Tvö mál íbúðarkaupenda í Árskógum gegn Félagi eldri borgara voru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Kaupendurnir krefjast þess að fá íbúðirnar afhentar án þess að greiða hærra verð. Lögmaður félagsins fékk í dag vikufrest til þess leggja fram rökstuðning.

„Það þarf að nefna þessar varnir stuttlega og þar er vísað til laga um fasteignakaup sem gilda auðvitað um kaupsamning eins og þennan. Þá er annars vegar um að ræða sjónarmið Félags eldri borgara um ómöguleika. Það er ekki með lykla að íbúðunum og getur ekki afhent þær nema það liggi fyrir að það verði greiddur þessi viðbótarbyggingakostnaður sem hefur komið í ljós. Hitt sjónarmiðið er svo ákveðið hagsmunamat þarna á milli því að auðvitað varðar þetta þessi samtök í heild sinni. Þetta varðar ekki bara þessa tvo kaupsamninga. Þetta varðar þessa byggingu í heild sinni vegna þess að það er ekki búið að gera upp við verktakann,“ segir Daði. 

Samkvæmt sáttatillögu sem félagið kynnti í gær greiðir hver kaupandi 37 prósentum minna en áður var krafist. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður kaupendanna tveggja sem krefjast þess að fá íbúðirnar afhentar án þess að greiða hærra verð, segir að félagið hafi engar lagalegar heimildir til að krefjast hærri greiðslna fyrir íbúðirnar og fulltrúi stjórnarinnar hafi einmitt sagt það í viðtali. „Þannig að mér þótti það nú dálítið einkennilegt hjá lögmanni félagsins að vera að óska veftir viku eða tveggja vikna fresti til þess að kokka upp einhverjar varnir í þessu máli sem þeir hafa sjálfir lýst yfir að séu ekki fyrir hendi.“

Segir kaupendum hafa verið stillt upp við vegg

Hann telur að sáttatilboð FEB um að krefjast lægri aukagreiðslu hafi ekki mikil áhrif á þróun málsins. „Upphaflega var þetta nú þannig að þess var krafist af fólki að það greiddi töluverðan fjölda af milljónum umfram það sem að um hafði verið samið til þess að fá afhenta lyklana og þar með var þeim stillt upp við vegg. Félagið hafði engar lagalegar heimildir til þess að gera þessar kröfur og þó svo að verið sé að veita einhvern afslátt af ólögmætum kröfum þá myndi ég telja að að ætti nú ekki að breyta neinu.“  

Kaupendur óánægðir með tilboð FEB

Íbúðarkaupendur eru óánægðir með tillöguna og nokkrir segja að Félag eldri borgara hafi ekki haft samband til að ræða hana. Flestir ætla að sjá hvernig málin fara yfir dómi. „Mér finnst að þeir eigi að bjóða betur því við erum með kaupsamning sem er í lagi. Það er ekkert að honum. Hann er þinglýstur og því er ekkert hægt að ganga að okkur,“ segir Ómar Kristjánsson, íbúðarkaupandi.

Sigrún Sighvatsdóttir, sem keypt hefur íbúð í Árskógum af Félagi eldri borgara, segir að tilboð félagsins sé frekar óaðgengilegt. „Kannski skömminni skárra en upprunalega tilboðið var en þetta er engu að síður mjög óásættanlegt í alla staði,“ segir hún. 

Ef farið verður í hart gegn félaginu fer það í þrot, segir Óli Stefáns Runólfsson, íbúðarkaupandi. „Því það á ekki neitt fyrir þessu og ég veit ekki hver raunverulega tekur þá við íbúðunum hérna.“

Stjórn Félags eldri borgara vildi ekki tjá sig um málið í dag. Ekki hefur náðst í bygginganefnd félagsins, sem sagði af sér í gær, né í byggingarverktakann.