Málþóf Miðflokksmanna í umræðu um þriðja orkupakkann er komið út fyrir öll velsæmismörk, segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. Staðan sé afleit. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins segir að umræðan snúist um efnisatriði og sé því ekki málþóf. Hins vegar vanti svör stuðningsmanna orkupakkans. 

Síðari umræða um þriðja orkupakkann stóð á Alþingi til tæplega sex í morgun og var svo framhaldið á þingfundi sem hófst hálf ellefu. Nánast eingöngu þingmenn Miðflokksins taka þátt í umræðunni en þeir vilja fresta málinu og vísa því aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Flokkur fólksins leggst einnig gegn þriðja orkupakkanum en segir að nú sé nóg komið, mörg mikilvægari mál bíði afgreiðslu þingsins. „Það þýðir ekki í nafni lýðræðis að láta lítinn minnihluta haga sér eins og við höfum þurft að þola hér allan þennan tíma og finna, í rauninni hef ég ekki upplifað neitt annað í minni tilfinningu heldur en ofbeldi og vanlíðan yfir því að geta ekki sinnt þeim störfum sem ég var hér kosin til þess að fylgja,“ sagði Inga Sæland í dag.

Umræðan hefur staðið í vel yfir hundrað klukkustundir og þar af hafa Miðflokksmenn talað í vel yfir níutíu klukkutíma. Forseti Alþingis tilkynnti við upphaf þingfundar að starfsáætlun þingsins hefði verið felld úr gildi og því ljóst að þingið mun starfa fram á sumar. 

„Í fyrsta lagi er nú spurning hvort að það sé hægt að skilgreina þetta sem málþóf, annars vegar í ljósi þess að við erum raunverulega að tala um málið, efnisatriði þess og kryfja þau og hitt er við erum ekki að biðja um neitt fyrir það að hætta eins og menn gera jafnan í málþófi,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann segir að flokkur hans muni tala áfram á meðan engin svör berist og kryfja málin sjálf.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna, segir að staðan sé afleit. „Ég held að við getum öll verið sammála um það að þetta málþóf Miðflokksmanna er komið út yfir öll velsæmismörk og stöðvar hér framgang eðlilegrar vinnu í þinginu, er þinginu ekki til sóma og heldur ekki þeim Miðflokksmönnum.“