„Það má segja það að á síðustu árum þá hefur nú stefnt að þessum lyktum,“ segir Ragn­ar Aðal­steins­son verj­andi Guðjóns Skarp­héðins­son­ar í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu. Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkssaksóknari, í málinu greindi frá því í dag að farið verði fram á að allir sakborningarnar fimm í málinu verði sýknaðir við endurtekna meðferð þess fyrir Hæstarétti.

Ragnar segir að Hæstiréttur sé bundinn af kröfu ákæruvaldsins og verði að sýkna þá sem í hlut eiga af ákærunum frá 1977 eða þar um bil. 

„Ég tel að Hæstiréttur geti ekki barist gegn kröfum ákæruvaldsins, hafnað þeim og gert sínar eigin kröfur. Ég held að það sé útilokað.“ 

Ragnar segir að Guðjón hafi tekið tíðindunum vel. „Hann tekur þessu að sjálfsögðu vel og lætur þetta ekki hagga ró sinni.“

Nýjar upplýsingar

Ragnar segir að komið hafi í ljós upplýsingar sem ekki hafi komið fram áður, einkum og sér í lagi um upphaf málanna, sem ekki hafi verið vitað um fyrir einu eða tveimur árum. „Það var þannig að þegar þetta mál var fyrir dómstólunum og fyrir lögreglu á sínum tíma þá sagði lögreglan að upphaf málsins væru sögusagnir. Menn létu það kyrrt liggja og það var aldrei rannsakað hvaða sögusagnir þetta væru. Nú hafa menn nokkuð góða hugmynd um það hvernig Guðmundarmálið kom upp í upphafi og það síðan tengt við Geirfinnsmálið og það skýrir kannski allar þessar ófarir sem að við höfum orðið fyrir í þessu máli.“ 

Framkvæmdinni í málinu var ábótavant, segir Ragnar. „Það var ekki farið að lögum við rannsókn málsins á margvíslegan hátt. Það var beitt einangrun, sem var auðvitað mannskemmandi og telst til pyntinga nú til dags og líka þá að mínu viti. Það var ekki hlustað á þá sem voru að benda á hvað var að gerast í gæsluvarðhaldinu eins og fangelsisprestinn, séra Jón Bjarman. Þannig að árstraumurinn sem bar þessa sakborninga með sér var svo stríður að það var ekki nokkur leið að stöðva hann; hvorki hjá lögreglunni, ákæruvaldinu eða dómstólum.“

Stjórnvöld ekki gefinn afsláttur

Ragnar var í Síðdegisútvarpinu spurður að því hvort niðurstaða ákæruvaldsins feli í sér að það verði engin meðferð fyrir Hæstarétti önnur en sýkna. „Það kann að vera að verjendurnir séu ekki allir sáttir við þá lýsingu sem er að finna í greinargerð ákæruvaldsins og vilji koma að sínum sjónarmiðum. Það skiptir auðvitað máli fyrir þá sem áður voru sakborningar, dómfelldir og sakfelldir, á hvaða forsendum niðurstaðan verði núna. Það er alveg ástæðulaust að láta hanga uppi einhvern vafa um að málshöfðunin í upphafi var nánast út í hött, var þarflaus, og það er alveg ástæðulaust að gefa stjórnvöldum, það er að segja þeim sem rannsökuðu málið og dæmdu, einhvern afslátt með því að gefa í skyn að kannski hafi þetta nú verið rétt að einhverju leyti.“

Aðspurður hvort lærdómur hafi verið dreginn af málinu segist Ragnar vona að menn sýni meiri varkárni. Menn séu ekki lengur hafðir í einangrun í tvö ár og menn hafi meiri reynslu og menntun í rannsókn sakamála. „Þær aðferðir sem voru notaðar eins og að yfirheyra menn hundruðum skipta án þess að bóka og bera síðan á milli sakborninga sögur, ég held að það myndi miklu síður gerast í dag.“

Telur að taka hefði átt upp rangar sakargiftir 

Endurupptökunefnd féllst á upptöku málanna hvað varðaði fimm sakborninga af sex: Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggva Rúnar Leifsson, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Klahn Skaftason. Endurupptökubeiðni sjötta sakborningsins, Erlu Bolladóttur, var hafnað. Hún var ekki dæmd fyrir að verða Guðmundi eða Geirfinni að bana, heldur fyrir að bera rangar sakir á aðra.

Ragnar reynir nú að fá niðurstöðu Endurupptökunefndar í máli Erlu Bolladóttur hnekkt fyrir Héraðsdómi Reykjavikur. Hann var spurður í Síðdegisútvarpinu hvort þessi niðurstaða í dag hafi áhrif á hennar mál. „Sakfellingar vegna rangra sakargifta voru ekki enduruppteknar, hvorki í máli Erlu né í máli Kristjáns, Viðars og Sævars Marínós. Þannig að það stendur eftir og satt að segja er erfitt að skilja hvers vegna endurupptökunefnd fór þá leið, vegna þess að það voru alveg sömu forsendur fyrir endurupptöku rangra sakargifta eins og aðra þætti málsins. Ekki síst með hliðsjón af niðurstöðum réttarsálfræðinganna sem báru alveg sérstaklega um hinar röngu sakargiftir þegar þeir voru yfirheyrðir sem vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“

Ragnar segir að næstu skref í málinu séu að verjendur skili greinargerð. „Svo verður málið munnlega flutt í Hæstarétti og dæmt.“