Helgi Hafnar Gestsson hefur farið nánast á hverjum degi frá árinu 1970 á Prikið á horni Laugavegs, Bankastrætis og Ingólfsstrætis. Þar situr hann á sama stað og drekkur úr sama bolla og spjallar við gesti og gangandi um heima og geima. Magnea B. Valdimarsdóttur kvikmyndagerðarkona er að gera heimildarmynd um Helga, Prikið og miðborg Reykjavíkur.
Prikið kaffihús í miðbænum á sér langa og litríka sögu. Í dag er rekið þar kaffihús á daginn en skemmtistaður á kvöldin og um helgar. Helgi Hafnar mætir á Prikið á hverjum morgni fyrir vinnu, fær sér kaffibolla, situr á sama stað og fær sama bollann. Eftir vinnu kemur hann aftur og fær sér þá te. Þetta hefur hann gert í hartnær fimm áratugi. Um helgar kemur hann í hádeginu og fær sér að borða. Hann spjallar við gesti, unga sem aldna, ferðamenn, pönkara og heimspekinga. Prikið var fyrst opnað árið 1951 sem vill svo skemmtilega til að er fæðingarár Helga.
„Tíminn líður. Ég kom hingað fyrst í nóvember árið 1970,“ segir Helgi Hafnar, þá var hann nýlega fluttur til Íslands frá Danmörku. Helgi talaði litla íslensku þá og þurfti að læra hana nánast frá grunni, þá hjálpaði það honum að spjalla við gesti Priksins. „Það er fólkið og staðurinn,“ segir Helgi þegar hann er spurður af hverju hann fór að venja komur sínar á Prikið. Hann situr alltaf í sama sætinu, við endann á barborðinu og þegar hann mætir á staðinn þá er honum vel fagnað af starfsfólki og gestum, fær faðmlag og knús úr hverju horni. Á Prikinu hefur Helgi kynnst mörgu áhugaverðu fólki, „Ég reyni að tala við fólkið sem hingað kemur. Ef einhver situr nálægt mér þá vil ég heldur tala við fólkið en að horfa á snjallsímann.“ Honum finnst líka gaman að taka ferðafólk tali og forvitnast um þeirra heimahagi og tungumál þeirra.
Vinnur á Reykjavíkurflugvelli
Helgi vinnur á Reykjavíkurflugvelli, á tækniupplýsingadeild Isavia, þar býr hann til öryggisbúnað. Hann er lærður útvarpsvirki frá Iðnskólanum í Reykjavík og og lærði tölvunarfræði hjá Háskóla Íslands.
Helgi hefur kynnt sér sögu staðarins með því að tala við fastagesti, starfsfólk og eigendur, til dæmis er hann fróður um innréttingarnar og breytingar í gegnum tíðina. Fyrst var staðurinn í eigu Silla og Valda og hét þá Adlon, í höfuðið á þýsku hóteli í Berlín. En þegar Bjarni Ingvar Árnason, kenndur við Brauðbæ, tók við rekstrinum fékk hann ekki leyfi til að halda nafninu, þannig að hann þurfti að finna nýtt nafn. Bjarni horfði yfir staðinn og fannst gestir staðarins, sem sátu við barborðið, minna á hænur á priki. Þar með var nafnið komið, Prikið, sem hefur haldist æ síðan.
Heimildarmynd um Helga á Prikinu
Magnea B. Valdimarsdóttir, leikkona og kvikmyndagerðakona, vinnur að heimildarmynd um Helga, Prikið og miðborgina. Helgi tók því afar vel þegar hún kom að máli við hann um að gera myndina og sló til um leið. „Ég er svo gæfusöm að Helgi er afar opinn og þegar ég spurði hann fyrst þá var hann strax til í þetta, “ segir Magnea. Hún hefur áður gert heimildarmyndir um til dæmis Hverfisgötuna, tvær konur sem vinna á kassanum í Bónus á Laugavegi og um Íslendinga á Kanaríeyjum.
Myndin er í tökum um þessar mundir og stendur nú yfir söfnun fyrir framleiðslunni á karolinafund.is, þar sem fólk getur lagt peninga til myndarinnar. Ef nógu há upphæð er lögð til er jafnvel hægt að komast í hóp framleiðenda myndarinnar.
Viðtalið við Helga Hafnar og Magneu var í Mannlega þættinum í dag og það má hlusta á í heild í spilararanum hér fyrir ofan.