Sandra Erlingsdóttir átti ekki von á því að taka þátt í landsleikjum Íslands á móti Spáni í umspili um laust sæti á HM kvenna í handbolta. Sandra var í æfingahópi íslenska landsliðsins en var svo ekki valinn í lokahópinn fyrir leikina síðasta fimmtudagskvöld. Það breyttist þó skyndilega í gær, og nú er hún komin til Spánar þar sem Ísland mætir heimakonum í fyrri leik liðanna í HM umspilinu annað kvöld.

„Það var bara alveg ótrúlega gaman að fá kallið. Ég sat uppi í sófa heima í Eyjum þegar símtalið kom og ætlaði að fara að leggja mig. En ég var svo bara komin þremur mínútum seinna upp í Herjólf,“ sagði Sandra þegar RÚV ræddi við hana í hótelgarðinum á hóteli íslenska landsliðsins í Antequera á Spáni nú síðdegis.

„Ég held ég hafi fengið kallið bara klukkan 21:25 og var komin í Herjólf klukkan 21:30 og svo bara beint í flug morguninn eftir það,“ sagði Sandra um óvænt ferðalag sitt til Spánar.

Kom inn í liðið í stað bestu vinkonu sinnar

Landsliðið var statt í Osló í Noregi þegar Sandra fékk kallið og kom til móts við liðið þar í gær. Hún hélt svo yfir með landsliðshópnum til Antequera á Spáni í dag þar sem leikurinn við Spánverja fer fram annað kvöld. Sandra kemur inn í liðið í stað Lovísu Thompson sem meiddist og var því send heim til Íslands í gær. Þannig vill til að Sandra og Lovísa eru bæði liðsfélagar hjá Val í Olís-deildinni og urðu Íslandsmeistarar þar saman fyrr í vor. Þá eru þær einnig bestu vinkonur.

„Já, það er auðvitað ömurlegt að vera valin í landsliðið af því að besta vinkona þín meiðist. En maður reynir auðvitað að hugsa að svona er þetta bara í handboltanum. En það var auðvitað mjög leiðinlegt,“ sagði Sandra um það að Lovísa hafi þurft frá að hverfa úr landsliðshópnum vegna meiðsla.

Samheldni í íslenska liðinu

Fram undan er leikur við Spán annað kvöld. Það er fyrri leikurinn af tveimur um það hvort Ísland eða Spánn vinni sér inn sæti á HM sem verður haldið í Japan í desember. Ísland hefur ekki komist inn á stórmót síðan 2012 en Spánverjar hafa átt fast sæti á stórmótum í langan tíma. Söndru líst vel á leikina við Spánverja.

„Þetta verður mjög spennandi og hópurinn er alltaf að bæta sig saman og það er orðin góð samheldni í þessu liði. Þannig að þetta verður allavega hörku leikur,“ sagði Sandra um leikinn við Spánverja annað kvöld og segir íslenska liðið vel stemmt fyrir leikinn.

Leikur Spánar og Íslands hefst klukkan 19:00 annað kvöld og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu RÚV. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:45. Allt viðtalið við Söndru Erlingsdóttur má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.