Magnea Hrönn Örvarsdóttir er tveggja barna móðir sem setið hefur í fangelsi í nær þrjú ár samtals en flest brota hennar teljast þó nokkuð léttvæg. Áfengi og fíkniefni urðu hennar böl, segir Magnea en rætt er við hana í þættinum Paradísarheimt.
Magnea var fyrirmyndarbarn að sögn móður hennar. Hún er og hefur alltaf verið reiðbúin til að hjálpa öðrum, öllum nema sjálfri sér. Hún var framúrskarandi námsmaður í menntaskóla þar sem hún heillaðist af heimspeki og lærði um tíma í Háskóla Íslands. Magnea bjó lengi í Englandi, hefur unnið við blaðamennsku og þýðingar og hefur m.a. skrifað greinar í Kvennablaðið um veru sína í fangelsi.
Í grein sem Magnea skrifaði þegar hún sat inni í kvennafangelsinu í Kópavogi segir hún að það sé sárt að hugsa til baka. Skömm, eftirsjá, vonbrigði, vonleysi og mórall. Kardimommudropar sem hún hefur stolið úr verslunum hafa stundum verið eina hjálpræðið en þeir hafa líka oft komið henni á bak við lás og slá. „Þetta er ógeðslega vont. Ég bara gleypi þetta einhvern veginn, skutla þessu í mig og reyni að drekka eitthvað á eftir, kók eða eitthvað.“
„Mér finnst sorglegt að eiga þessar minningar, að hafa verið í fangelsi og að hafa verið róni niðri í bæ. Best klæddi róninn, alltaf í rándýrum fötum úr Kronkron og svo niðri á Austurvelli að drekka kardó.“
Jón Ársæll ræðir við Magneu og fleiri fanga í þættinum Paradísarheimt sem er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 20.20. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.