Hvort á maður að skrifa ritgerð eða fara til Berlínar þar sem hugsanlega er eitthvað sögulegt að fara að gerast? Og hversu öruggur getur maður verið um skilning sinn þegar manni heyrist fulltrúi austurþýskra stjórnvalda segja að allar landamærastöðvar verði opnaðar en fær enga staðfestingu á því? Þetta er meðal þess sem Guðni Th. Jóhannesson og Árni Snævarr þurftu að spyrja sig fyrir 30 árum, þegar Berlínarmúrinn féll.

Í dag eru 30 ár síðan stjórnvöld í Austur-Þýskalandi tilkynntu óvænt að þau myndu opna landamærastöðvar. Mánuðina á undan höfðu landamærin milli Ungverjalands og Austurríkis og síðar Tékkóslóvakíu og Austurríkis opnast. Þar með gat fólk austan járntjaldsins ferðast yfir landamærin til Vestur-Evrópu. Þetta hafði fjöldi Austur-Þjóðverja nýtt sér og þrýstingurinn á þarlend stjórnvöld fór vaxandi. 

Þetta var eftirminnilegur tími fyrir þá sem upplifðu, nær og fjær. Þeirra á meðal eru Guðni Th. Jóhannesson forseti sem þá var sagnfræðinemi í Bretlandi og Árni Snævarr sem var í erlendum fréttum á fréttastofu Sjónvarps.

Samviskusami námsmaðurinn

Meðal námskeiða Guðna þetta haust var Comparative Communist Systems, sem kalla mætti Samanburðarfræði kommúnisma. „Þarna voru umbrotatímar í Austur-Evrópu. Ég man að kennari okkar sagði við okkur, þegar breytingar voru í vændum og voru að gerast í Póllandi og Ungverjalandi, ferskir vindar að blása, frá Moskvu meðal annars, hann sagði við okkur: Þið verðið bara að fylgjast með fréttum. Bækurnar eru að verða úreltar.“

Félagi Guðna leit til atburðanna í Austur-Evrópu og stakk upp á því við Guðna að þeir færu til Berlínar og önduðu að sér því andrúmsloftinu í Berlín og yrðu vitni að sögunni í mótun. „Ég hugsaði mig aðeins um og komst svo að því að ég hefði bara ekki tök á því að fara því að ég yrði að skila ritgerð í Samanburðarfræðum kommúnisma. Þessi samviskusemi olli því að ég missti af því að verða vitni að falli Berlínarmúrsins.“

Aldrei liðið jafn rosalega illa yfir frétt

Árni Snævarr var á vakt daginn sem flóðgáttirnar opnuðust. Unnur Úlfarsdóttir var sérfræðingur fréttastofunnar í málefnum Þýskalands en þurfti að fara snemma af vaktinni þennan dag. Hún lagði þó áherslu á það við Árna að fylgjast með blaðamannafundi sem þýsk stjórnvöld ætluðu að halda síðar um daginn. 

Þetta gerði Árni sem horfði á fundinn. „Svo skil ég ekki betur en hann segi: Og opna allar landamærastöðvar. Hann sagði náttúrulega ekki: Opna Berlínarmúrinn upp á gátt,“ segir Árni um sögulega tilkynningu Günter Schabowski. Árni var ekki alveg viss í sinni sök og ekki bætti úr skák að engar staðfestingar komu í gegnum fréttaveitur. Á þessum tíma var RÚV með frumstætt kallkerfi við erlendar fréttaveitur en þar var enginn sem kannaðist beinlínis við þetta. 

Árni var því í vanda staddur. „Ég verð bara að kíla á það og ég gerði það. Þetta er mesta áhætta sem ég hef tekið á mínum blaðamannaferli. Mér hefur aldrei liðið jafn rosalega illa yfir frétt sem hefur farið í loftið. Hún reyndist vera rétt.“ Hann segir þó að fréttin hafi ekki verið jafn góð og ella þar sem hann var ekki alveg viss í sinni sök. Hún byrjaði ekki á opnun Berlínarmúrsins heldur öðrum vendingum þann daginn.