Verkefnisstjóri hjá Orkustofnun telur að auðvelda beri bændum að nýta sér þá kosti sem felist í að virkja bæjarlækinn. Þar ætti að horfa til Norðmanna sem hafi reist tvöþúsund smávirkjanir. Undanfarinn áratug hefur Orkustofnun gefið út tæplega 60 rannsóknar- eða virkjunarleyfi fyrir slíkar virkjanir.

Virkjun telst smávirkjun ef uppsett afl er innan við tíu megavött. Veturinn 2016 hrinti Orkustofnun af stað smávirkjanaverkefni svo stuðla mætti að aukinni raforkuframleiðslu víða um land og bregðast þannig við raforkuskorti og bæta öryggi. 

Litlar vatnsaflsvirkjanir til að styrkja einstök svæði 

„Og þannig sjáum við þá litlar vatnsaflsvirkjanir sem möguleika til þess að styrkja dreifikerfið víða um land, og raforkuframleiðslu í einstökum landshlutum, þannig að það sé þá hægt að byggja upp smærri atvinnustarfsemi þar,“ segir Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri skipulags raforkuvinnslu hjá Orkustofnun. 

57 leyfi undanfarinn áratug

Þegar síðastliðin tíu ár eru skoðuð sést að Orkustofnun hefur gefið út 38 leyfi til rannsókna á kostum smávirkjana og 19 virkjunarleyfi. Eðlilega hefur aðeins hluti þessara 57 leyfa komið til eftir að átak stofnunarinnar hófst. En sveitarfélög, landshlutasamtök, Byggðastofnun og fleiri eru nú komin til samstarfs og í dag birti Orkustofnun yfirlit yfir sjö skýrslur um möguleika á smærri vatnsaflsvirkjunum víða um land.

Vonaðist eftir fleiri verkefnum frá bændum

„En það sem að kannski hefur verið minna af heldur en ég var að vonast eftir, var að bændur sjálfir sýndu áhuga á að biðja okkur um að skoða einstaka virkjunarkosti fyrir sig,“ segir Erla. Og þar séu ýmsar hindranir. Afar flókið regluverk, langur undirbúningstími og verulegur kostnaður. Úr þessu þurfi að bæta eigi bændur að geta nýtt sér þennan kost sem skyldi.

Mun meir stuðningur í Noregi

Þar mætti meðal annars annars horfa til Noregs þar sem reistar hafi verið 2000 smávirkjanir. Raforkubændur þar fái ríkan stuðning, bæði við rannsóknir, byggingu og rekstur virkjana. „Því að það er eiginlega það sem ég hef mest lært á þessum tíma sem ég er búin að vinna í þessu verkefni, hvað þetta er kannski erfiður hjalli að fara yfir, að komast í gegnum undirbúningsfasann fyrir þá sem hefðu áhuga á að nýta lækinn sinn,“ segir Erla.