Þrjátíu og fimm ár eru liðin frá því að útihátíð sem fáir fóru á en margir muna eftir fór fram í Viðey. Afar fámennt var á hátíðinni sem þurfti að lúta í lægra haldi fyrir veðurguðunum og hátíð Stuðmanna í Atlavík þar sem bítillinn Ringo Starr kom fram.

„Hvað finnst mér um það þegar fólk verður brjálað?“ spyr Magnús Kjartansson tónlistarmaður sjálfan sig þegar hann rifjar upp Viðeyjarhátíðina sem blásin var af vegna veðurs og dræmrar aðsóknar verslunarmannahelgina 1984. Meðal hljómsveita sem komu fram á hátíðinni og léku tónlist sína fyrir þá fáu gesti sem gerðu sér ferð á hana voru Kukl og SH Draumur.

Magnús var einn skipuleggjenda hátíðarinnar og segir að samkeppnin hafi verið sérstaklega erfið það árið. „Ringo Starr kom í Atlavík og á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þetta er hörð samkeppni,“ segir Magnús og bætir við að nálægðin við Reykjavík hafi líklega ekki hjálpað. „Það er ríkt hjá yngri kynslóðinni að komast það langt að pabbi og mamma banki ekki á tjaldið.“

Búist var við að gestir hátíðarinnar yrðu um 2500 talsins. Heimturnar urðu þó ekki meiri en svo að á bilinu 300-500 seldust á hátíðina. Í viðtali við Fréttastofu RÚV þegar hátíðin fór fram sagði Magnús að sterk öfl hafi snúist gegn hátíðahöldum í Viðey um leið og undirbúningur hennar hófst.

„Fólk verður alltaf brjálað,“ segir Magnús þegar hann er beðinn um að rifja upp viðbrögðin sem fyrirætlanir um að halda útihátíðina fengu. „Það verður það þegar Secret Solstice er, það verður alltaf allt vitlaust ef það á að gera eitthvað. Það næstum því verður allt vitlaust út af 17. júní.“

Hann tekur ekki undir það að umrætt fólk sem fetti fingur út í hátíðarhöld séu fýlupokar. „En það er mörgum sem finnst einhvern veginn ráðist að þeim ef þeir geta ekki farið að sofa klukkan hálftíu á kvöldin. Þetta getur verið mjög mismunandi en ég ætla ekki að dæma neinn.“

Hátíðin var tekin fyrir í áramótaskaupinu 1984 og það læðist bros á varir Magnúsar þegar það kemur til tals. „Mér fannst það bara gaman. Ég hef aldrei verið viðkvæmur fyrir sjálfum mér og geri kannski mest grín að mér sjálfur og finnst svakalega gaman þegar einhverjir aðrir gera það. Ég hef tekið þátt í of mörgu gysi á aðra til að taka það nærri mér.“ 

Magnús segist ekki vera líklegur til að endurtaka leikinn. „Nei ekki ég, en kannski einhverjir aðrir. Eyjan er þarna á sínum stað. Aðstæðurnar eru þarna. Einhvers staðar þurfa menn að taka ákvörðun um það hvort að það sé skemmtileg hugmynd að nota eyjuna í eitthvað annað en að þar séu nokkrar hræður að rangla milli kirkju og Viðeyjarstofu. Svo má minna á að mjög mikið af tónlistarhátíðum og veislum eru haldnar á eyjum, til dæmis fyrir utan England, Írland og Skotland. Í þetta sinn virkaði það ekki þarna. Einn góðan veðurdag má búast við því að það verði fjöldi fólks úti í Viðey að njóta náttúru og skemmtunar.“

Rætt var við Magnús Kjartansson um Viðeyjarhátíðina í Sumrinu á RÚV.