Drago Kos, formaður vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, gegn mútum segir að ásakanir á hendur Samherja um mútugreiðslur séu trúverðugar og málið verði prófsteinn á getu íslenskra lögregluyfirvalda. Stofnunin muni fylgjast náið með málinu.

Ísland er aðili að alþjóðlegum sáttmála OECD um mútur í alþjóðaviðskiptum.

„Ég verð að segja að þetta eru trúverðugar ásakanir, en samt aðeins ásakanir,“ segir Drago Kos, sem hefur kynnt sér ásakanir gegn Samherja um mútugreiðslur í Namibíu.

Kos segir að það kunni að koma fólki á óvart að slíkt máli komi upp á Íslandi. „Ég hef þó haldið því fram í mörg ár að enginn sé ónæmur fyrir spillingu.“

Hann segir að það kæmi honum virkilega á óvart að finna land þar sem alþjóðlegt mútumál hefði aldrei komið upp.

Hins vegar komi þetta kannski örlítið á óvart „vegna þess að ég veit hversu gott starf rannsakendur og saksóknarar unnu eftir bankahrunið. Þess vegna gerði ég ráð fyrir að mögulegir, og ég legg áherslu á mögulegir, grunaðir menn á Íslandi hefðu ekki vogað sér að hætta á þetta því þeir ættu að vita að afleiðingarnar yrðu alvarlegar,“ segir Kos.

Formleg lögreglurannsókn mun hafa hafist þegar Jóhannes Stefánsson mætti í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara sama dag og þáttur Kveiks var sendur út í síðustu viku.

„Fyrir okkur hjá OECD verður það góður prófsteinn á íslensku lögregluna og ákæruvaldið að sjá hvernig þau taka á málinu. Við fylgjumst vel með gangi mála.“ Kos segist vona að stjórnvöld taki á málinu „innan skynsamlegra tímamarka, á skjótan og skilvirkan hátt.“

Að sjálfsögðu, segir hann, þarf að virða lagareglur. „Við þurfum að muna að allir eru saklausir uns sekt er sönnuð, svo við vitum aldrei hvernig þetta fer.“ Upphafið lofi þó góðu.

Hann segir mestu áskoranirnar við rannsóknina að málið teygir sig yfir landamæri og því þurfi að vinna með namibískum yfirvöldum, og svo þurfi að sanna hver vissi hvað og hver ásetningurinn var.

Samherji hefur varpað allri ábyrgð á Jóhannes Stefánsson. Kos segir að slíkt sé mjög algengt. Oft nái lögregla að sýna fram á annað. „Staðhæfingar um að einn maður á vegum fyrirtækisins beri ábyrgð á öllu standast sjaldnast skoðun lengur.“

Kos segir að ef það kemur í ljós að meira en milljarðs króna greiðslur Samherja til namibískra ráðamanna og venslamanna þeirra hafi verið mútur teljist þetta vera stórt mál á heimsvísu: „Tíu milljónir dollara eru háar mútugreiðslur.“