„Hefur heimurinn ekki alltaf verið að farast? Hefur ekki ný tækni ávallt verið kvíðavekjandi fyrir rótgrónar sálir? Jú mikil ósköp, og Tolentino er fullkomlega meðvituð um það,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson um Skynvilluspegillinn: Hugleiðingar um sjálfsblekkingu, nýlegt greinasafn eftir Jiu Tolentino, nýmiðla- og skjámenningarrýni bandaríska vikublaðsins New Yorker.


Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Síðastliðið haust tók ég eftir nýju smáforriti á spjaldtölvu sonar míns, sem er tíu ára. Tik Tok hét það og í þessu forriti gaf að líta á annan tug myndbanda sem hann hafði tekið upp og sett saman, flest með honum sjálfum í aðalhlutverki. Þarna hafði hann gengið inn í í samfélag eins vinsælasta netmiðils veraldar, hundruðir milljóna nota Tik Tok, hundruðir milljóna barna og unglinga.

Það var ein og aðeins ein ástæða fyrir því að ég vissi hvað Tik Tok var, og tók af þeim sökum eftir því innan um leikina óteljandi sem leggjast á eitt um að skapa það allra óreiðukenndasta skjáviðmót sem ég hef séð, skynheild sem hefur það aukahlutverk að vera dulkóðun á áhugamálum eigandans. En ástæðan fyrir því að ég kannaðist við nafnið á forritinu var sú að viku fyrr hafði ég lesið grein um Tik Tok eftir Jiu Tolentino í bandaríska vikuritinu New Yorker. En hjá þessu helsta flaggskipi vestrænnar menningarblaðamennsku hefur Tolentino starfað síðan 2016, og sérsvið hennar er sá hluti af tækniveröld nútímans sem við kennum við stafræna menningu og samfélagsmiðla; það má kannski segja að „netið“, í sínum mörgu framandi gervum sé viðfangsefni hennar.

Fyrsta bók Tolentino kom út núna í haust, Trick Mirror: Reflections on Self Delusion, eða Skynvilluspegillinn: Hugleiðingar um sjálfsblekkingu. Um er að ræða safn af greinum sem upphaflega voru skrifaðar fyrir New Yorker, en birtast hér margar hverjar í lengri útgáfum. Ólíkt netinu eru bækur sjaldnast alveg beintengdar inn í hina svokölluðu líðandi stund, frá höfundarins hendi tekur dálítinn tíma að búa slíkan grip til og svo bætist við útgáfuvafstrið hjá forlaginu. En greinasafn þetta er sennilega hér um bil eins núgildandi og bókverk af þessu tagi getur verið, og tengist það ekki síst þeirri staðreynd að umfjöllunarefnið í öllum greinunum er slökkviliðsslöngubunan af skoðunum, viðhorfum og upplýsingum sem liggur beint framan í okkur öll um þessar mundir.

Ekki er í því sambandi hægt að segja að Tolentino sé að boða fagnaðarerindi úr veröld nýrri og góðri. Á einum stað snemma í bókinni rifjar hún upp staksteina og táknræna atburði fyrir það hvernig fjölmiðlun og upplýsingamiðlun hafa tekið breytingum á nýju árþúsundi, og þá ekki til hins betra. Samfélagsmiðlar samtímans eru rökrétt lokastöð þessa ferlis, alltumlykjandi stafræn veröld þar sem hvatakerfi fyrirtækjanna sem hana sníða og hanna snýst fyrst og fremst um að koma notendanum í uppnám og þannig kalla fram viðbrögð. Höfundur ber hvatakerfið saman við þekkta atferlistilraun á rottum, en sú tilraun leiddi í ljós að í búri þar sem takki er fyrir hendi sem hægt er að ýta á með trýninu í von um að fá fæðu hættu rotturnar smám saman að skipta sér af takkanum ef fóðurmolarnir komu hvort sem er með reglubundnum hætti, eða aldrei. En ef fóðrið skilaði sér óreglulega gáfust rotturnar aldrei upp, þær héldu áfram að nuddast í takkanum fram í hið óendanlega. Það er með öðrum orðum, segir Tolentino, byggt inn í grundvallarrökvísi samfélagsmiðla að vera að mestu ófullnægjandi, það heldur okkur við efnið, skrollandi niður skjáinn í von um eitthvað betra.

Áðurnefndri staksteinaumfjöllun lýkur hún svo með þessum orðum: „En þrátt fyrir þetta hef ég undanfarið verið að velta fyrir mér hvernig í ósköpunum allt varð svona innilega og persónulega skelfilegt – og af hverju við höldum áfram að taka þátt. Hvernig stendur á því að stórkostlegur fjöldi fólks heldur áfram að verja lunganum af hverfandi frítíma sínum í bersýnilega kvalafullu umhverfi? Hvernig varð netið svona slæmt, svona innilokandi, svona óumflýjanlega persónubundið, svona pólitískt ákvarðandi – og hvers vegna snúast allar þessar spurningar um sama hlutinn?“

Hér nefnir höfundur jafnframt til sögunnar fyrirtæki, raunar svo afskaplega ríkt og valdamikið fyrirtæki að við þurfum eiginlega að líta til velmektarára Vatíkansins og Kaþólsku kirkjunnar til að finna hliðstæða samþjöppun alræðissinnaðs valds, en hvurs upphaflega hugsjón og yfirlýstur útgangspunktur var frelsi og samtenging, og í rafrænu, stafrænu upplýsingabyltingunni miðri var þjónusta fyrirtækisins jafnframt valdeflandi, veitti neytandanum sjálfum stjórn á upplýsingaflæðinu, gaf honum kost á að fínstilla hvaða upplýsingar og hvers konar efni kom fyrir hans sjónir. En í staðinn fyrir stjórn á eigin andrými reyndist sköpunarverkið vera tilvistarvettvangur þar sem við, fyrst sem einstaklingar og svo sem samfélag, misstum stjórnina endanlega.

„Markmið Facebook, að sýna fólki aðeins það sem það hafði áhuga á, leiddi á innan við tíu árum til endaloka sameiginlegs veruleika samfélagsþegnanna“, segir Tolentino og samhengið er auðvitað bandarískt, þar sem hugmyndin um „gervifréttir“ – fake news – kjarnar þetta ótímabæra andlát veruleikans.

Við lestur greinanna færist yfir mann sú tilfinning að netheimar snúist um lítið annað en að hirða og snyrta stafrænt framsetta sjálfsímynd, verða smám saman svo holaður að innan að maður fer að trúa því að skoðanir sem látnar eru í ljós skipti einhverju máli, séu jafnvel jafngildar gjörðum, og að það að tryllast yfir handahófskenndu tvíti eða stöðuuppfærslu sé samfélagsþátttaka.

En hefur heimurinn ekki alltaf verið að farast? Hefur ekki ný tækni ávallt verið kvíðavekjandi fyrir rótgrónar sálir? Jú mikil ósköp, og Tolentino er fullkomlega meðvituð um það. Og svarar ykkur, þeim ykkar sem einmitt hafið verið að svara mér í huganum meðan þið hlustið, og rökstyður hvers vegna lítið skjól felist í þessari staðreynd. Ég vitna í bókina:

„Auðvitað hefur fólk tuðað öldum saman. Sókrates óttaðist að fyrsta stóra tæknibyltingin, uppfinning skriftar, myndi valda minnisleysi, á sextándu öld hafði vísindamaðurinn Conrad Gessner áhyggjur af því að tilkoma prentvélarinnar myndi valda of miklu og stöðugu upplýsingaáreiti í lífi fólks, svo var því haldið fram á átjándu öld að tilkoma skáldsögunnar myndi valda samfélagsusla, einkum meðal kvenna sem myndu í kjölfar lesturs slíks ósóma tapa hæfileikanum til að gera greinarmun á skáldskap og veruleika“, og hér verð ég að skjóta inn að þetta forpokaða viðhorf er auðvitað drifkrafturinn í Frú Bovary eftir Flaubert, en það sem hefur breyst, segir Tolentino, „er að umsvifarýmið er horfið, vegurinn kláraðist og það er enginn næsti áfangi. Það er ekkert ræktarland eftir fyrir kapítalismann annað en sjálfið. Við erum búin að éta allt upp og núna er röðin komin að persónuleika okkar, samböndum og athygli.“