Hans Blær er nýtt íslenskt leikrit eftir Eirík Örn Norðahl sem er sett upp í Tjarnarbíói af Óskabörnum ógæfunnar í leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar. Hans Blær er kynsegin nettröll sem þrífst á því að ganga fram af fólki og í leikritinu er saga háns sögð.
„Ég skemmti mér mjög vel,“ segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi Menningarinnar. Þá segir hann leikhópurinn standa sig mjög vel við að túlka Hans Blæ, sem flestir leikararnir skiptast á að leik, en Sara Marti og Jörundur Ragnarsson hafi staðið upp úr. „Þetta er krassandi verk. Það er verið að skjóta á Metoo byltinguna, það er hæðst að umskurðarumræðunni, og því hvernig samfélagið gerir fávita að frægum stjörnum fyrir að segja aulalega hluti.“
En er verkið um kyngervi eða samfélagsumræðuna? „Mér finnst þetta svolítið Eiríkur Örn að setja út sína löngu olnboga, og kanna rými höfundarins hve langt er hægt að ganga,“ segir Bryndís Loftsdóttir. „Eru til dæmis bara miðaldra hvítir kallar sem megar vera vondir, eða getur hann gert hvern sem er vondan?“ Bryndís segir að einna sterkustu kaflar verksins séu fróðleikur og upptalning á tröllum frá fornu fari, hvernig þau nærist jafnt á minni máttar sem og ráðamönnum. „Höfundurinn er að sýna okkur hvernig við nærum þessi tröll með bæði hlátri og hneykslun. Við viljum sjá meira, við viljum bara ekki að þau beinist gegn okkur.“
Bæði Snæbjörn og Bryndís segja tónlist, lýsingu og leikmynd, tækni- og útlitshlið sýningarinnar, vera til algjörrar fyrirmyndar. „Mann líður dálítið eins og maður sé inni í skoltinum á rándýri,“ segir Bryndís. Sýningin dali hins vegar í lokakaflanum. „Mér finnst þriðji þátturinn verulega gallaður,“ segir Snæbjörn. „Þetta getur stundum gerst í sögunum hans og gerðist líka í Illsku, það er eins og þau viti ekki alveg hvert þau ætla að fara og þetta endi bara einhvern veginn.“ Bryndís leggur þó áherslu að ennþá sé verið að þróa verkið, en næsta sýningar á því eru mánuði eftir frumsýningu. „Þannig að okkar gagnrýni er strax orðin úrelt, það verður komin ný sýning þá.“