Eins og áður var rakið í Spegilspistli hyggst Alþingi fela Ríkisendurskoðun að kanna aðkomu yfirvalda að starfsemi Wow, þá hvort eftirlit hafi brugðist. En Alþingi hefur einnig samþykkt lög sem draga enn frekar athyglina að eftirlitsyfirvöldum – það er ný lög um sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins.
Viðvaranir AGS í fimm ár um veikt FME
Undanfarin fimm ár hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hamrað á að Fjármálaeftirlitið íslenska væri of veikt, of varnarlaust fyrir pólitískum afskiptum. Svona ábending væri alls staðar óþægileg. En hún er sérlega áhyggjusamleg í landi sem fyrir rúmum áratug gekk í gegnum ótrúlegar fjármálahremmingar.
Velþóknun stjórnmálamanna gerði FME að olnbogabarni
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið rakti ítarlega hvernig velþóknun íslenskra stjórnmálamanna á óðavexti bankanna gerði fjármálaeftirlitið að olnbogabarni. Í viðbót við pólitískar skoðanir voru ýmsir stjórnmálamenn nátengdir bönkunum og stærstu eigendum þeirra. – Opinbert eftirlit í litlum löndum felur í sér sérstök vandamál þó það sé sannarlega ekki þar með sagt að eftirlit í stórum löndum gangi eins og í sögu.
Mögulegar lausnir
AGS hefur iðulega bent á að leysa mætti eftirlitsvandann með því að gera FME óháðara fjármálaráðuneytinu – eða – sameina FME og Seðlabankann. Eftir vangaveltur um árabil hefur síðari leiðina verið valin, nú á að sameina Seðlabankann og FME. Tvö frumvörp um þessi efni eru nú orðin að lögum.
Tíska í aðskilnaði og sameiningu
Aðskilnaður eða sameining seðlabanka og fjármálaeftirlits eru svolítið eins og stutt og síð pils í tískuheiminum, stundum er sameining í tísku, stundum aðskilnaður líkt og sjá má á sögu seðlabanka víða um heim. Grundvallaratriðið er þó alltaf sjálfstæði þessara stofnana, að þær séu utan áhrifasviðs stjórnmálaafla og hagsmunaaðila.
Seðlabankinn varaði við sameiningu í flýti
Í umsögn Seðlabankans frá í vor um frumvörpin tvö kemur fram að bankinn styðji breytingarnar í meginatriðum. Með þeim megi forða því sem varð svo mjög til tjóns 2008: að Seðlabankinn, lánveitandinn til þrautavara, hafði ekki nægilega innsýn í stöðu einstakra banka.
Áhyggjusamlegra er þó að í umsögn Seðlabankans er bent á að frumvörpin hafi verið samin á svo stuttum tíma að efast megi um að nægilegur tími hafi gefist til að finna bestu leiðirnar.
Það er athyglisvert að svo mikið lá á. Ætti ekki að þurfa að tengjast ráðningu nýs seðlabankastjóra því það var löngu vitað að til hennar kæmi í sumar. En sumsé, Seðlabankinn hefur áhyggjur af að sameiningunni hafi verið hespað af í flýti.
Viðvörun Viðskiptaráðs: enn valdameiri stofnun en áður
Í umsögn Viðskiptaráðs um sameininguna segir að ráðið sé í megindráttum fylgjandi sameiningu. En, það bendir á einn galla: þarna sé verið að búa til enn valdameiri stofnun en áður og hún þurfi því gott aðhald, til dæmis frá bankaráðinu. Sem þýðir að vanda verður skipan þess.
Gylfi Zoega: ,,Pólitísk og persónuleg hollusta mun skipta enn meira máli en áður"
Þessi samþjöppun valds og áhrif hennar valda víðar áhyggjum. Í grein í Vísbendingu í vor hnykkir Gylfi Zoega prófessor á því sama: pólitísk áhrif verði líklega meiri en áður, einfaldlega vegna þess hve öflug stofnunin verður.
,,Pólitísk og persónuleg hollusta mun skipta enn meira máli en áður,” skrifar Gylfi. Hingað til hafi verið nógu erfitt að skipa seðlabankastjóra á faglegum forsendum. Stofnunin of mikilvæg í pólitísku tilliti til að reynt væri að finna hæfasta fólkið. Og það, þótt afleiðingar mistaka í stjórn bankans á samfélagið geti verið, og hafi þegar reynst, hörmulegar, samanber hrunið 2008.
Afskipati í litlu samfélagi og persónulegar deilur
Það verður tæpast auðveldara fyrir Seðlabankann en það hefur verið fyrir FME að hafa afskipti af starfsemi fjármálafyrirtækja. Og í litlu samfélagi er tilhneiging til að slík deilumál verði persónuleg, segir Gylfi.
Nýjar tillögur fyrir slysni
Hann bendir að lokum á að þessar nýju tillögur hafi eiginlega orðið til fyrir slysni, sprottið upp úr annarri vinnu. Æskilegra hefði verið að halda í það sem hefur reynst vel og bæta annað í litlum skrefum. Og, segir Gylfi, gera ekki ráð fyrir að breytingar séu gerðar einungis út frá þjóðarhag, ólitaðar af hagsmunum og pólitík.
Breytingar, bankaeigendur og endurkoma
Það er athyglisvert að eins og Gylfi bendir á þá eru þessar breytingar gerðar nú þegar við blasir að stærstu hluthafar gömlu bankanna sem voru einnig stærstu lántakar þeirra og eigendur stórfyrirtækja eru enn stórumsvifamenn á Íslandi. Menn eins og Ólafur Ólafsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Björgólfur Thor Björgólfsson og svo Hreiðar Már Sigurðsson fyrrum forstjóri Kaupþings. Peningum hafi í mörgum tilvikum verið komið undan, líklegt að kunnir stórumsvifamenn frá því fyrir hrun eignist aftur að minnsta kosti einn öflugan íslenskan banka, nema þeir séu þegar búnir að því, segir Gylfi. Og kannski með sömu endurskoðendur og áður.
Kannski stutt í að reyni á sjálfstæði nýs fjármálaeftirlits
Það getur því verið stutt í að reyni í alvörunni á sjálfstæði fjármálaeftirlits, bæði í samskiptum við bankana og ríkisstjórnina. Þá, segir Gylfi, væri betra að peningastefnan væri ekki undir sama þaki og eftirlitið.