Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segist hræddur um að samdráttur í efnahagslífinu verði langvinnari en spáð hafi verið. Mesta óvissan nú sé hvort samdrátturinn dragist töluvert fram á næsta ár. Ógerðir kjarasamningar séu einn af áhættuþáttunum.
0,7% samdráttur 2019 - 1,5% hagvöxtur 2020
Í hagspá Greiningar Íslandsbanka sem birt var í morgun er spáð samdrætti á árinu líkt og í öðrum nýlegum hagspám. Greining Íslandsbanka spáir 0,7% samdrætti vergrar landsframleiðslu í ár og aðeins 1,5% hagvexti á því næsta. Samdráttarspá Íslandsbanka er ívið meiri en spár Seðlabankans og Hagstofunnar í maí. Þær voru 0,4% og 0,2%. Samdráttarspá Arionbanka var hins vegar 1,9% en hún var birt rétt eftir fall WOW.
„En ég er hins vegar sammála þeim um að opinberir aðilar séu kannski bæði að vanmeta samdráttinn í ár og bjartsýnir um að hér lagist hlutirnir fljótt. Þannig að menn voru kannski ekki búnir að vinna úr nýlegum fréttum um einmitt minna framboð í haust og vetur þegar þessar spár Hagstofu og Seðlabankans komu út,“ segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Greiningar Íslandsbanka.
Alvöru vandamál ef samdráttur ílengist
Hann segir að fall WOW í lok mars hafi slegið botninn í langa og farsæla uppsveiflu.
„Ef að þetta ár verður eina árið sem við verðum í verulegu mótlæti þá er það ekki svo ýkja þungbært. En ég er pínu hræddur um það að þetta verði langvinnara.“
Það sé ekki af því að útflutningur, það er ferðaþjónustan og sjávarútvegur, taki við sér að einhverju ráði heldur að einkaneyslan aukist aðeins og líka fjárfesting í íbúðarhúsnæði og innviðum.
„Ef að verður meira og dýpra högg á útflutninginn þá duga þessir hinir liðir sem ég nefndi síður til þess að halda dampi í hagkerfinu og það getur dregist töluvert fram á næsta ár að við sjáum þennan viðsnúning. Þar er mesta óvissan finnst mér. Stóri punkturinn er að láta ekki þennan hægagang ílendast eða grafa um sig víðar í hagkerfinu því að þá förum við að sjá alvöru vandamál.“
Ógerðir kjarasamningar einn áhættuþáttur
Það góða við stöðuna nú að þjóðfélagið hafi meiri burði til að takast á við skellinn, skuldir hins opinbera séu miklu minni en fyrir nokkrum árum, fjárhagsstaða heimilanna sé almennt nokkuð sterk og nýgerðir kjarasamningar ýti ekki undir verðbólguna. Hins vegar séu þeir kjarasamningar sem eftir sé að gera einn af áhættuþáttunum, segir Jón Bjarki, það er að segja að þau viðmið í nýgerðum kjarasamningum haldi um að einblína á þá hópa sem minnst hafi. Minna sé til skiptanna og bíða verði betri tíma til að sækja stórfelldar kjarabætur.
„Það er svolítið skammgóður vermir að keyra upp tímabundið kaupmátt sinna félagsmanna ef það þýðir að hagkerfið allt lendir í meiri ógöngum og að við verðum lengur að bíta úr nálinni með allt málið.“