Kostnaður ríkisins við hugbúnaðarverkefni sem ekki fóru í útboð nam hátt í 200 milljónum króna, en ekkert þeirra er í notkun í dag. Fyrrum embættismaður í félagsmálaráðuneytinu sat beggja vegna borðsins þegar hann samdi fyrir hönd ríkisins um kaup á hugbúnaði af fyrirtæki sem hann stýrði sjálfur.
Frá þessu var greint í Kastljósi.
Á undanförnum áratug hafa tvö ráðuneyti og undirstofnun eins þeirra samið um gerð fjögurra hugbúnaðarverkefna við fyrirtækið Forsvar ehf á Hvammstanga. Kostnaður ríkisins vegna þeirra nam hátt í tvö hundruð milljónum króna á núvirði. Ekkert þessara verkefna var boðið út og þrjú þeirra hafa ítrekað sætt gagnrýni Ríkisendurskoðunar vegna þess hvernig staðið var að þeim af hálfu ríkisins. Einungis eitt þessara verkefna komst í notkun, og það aðeins tímabundið, svokallað upplýsingakerfi um þjónustu við fatlaða.
Umsjón með gerð verkefnisins af hálfu ríkisins var í höndum þriggja manna stýrihóps sem félagsmálaráðherra skipaði og starfaði til ársins 2007. Annar af tveimur fulltrúum ráðherra í hópnum var á sama tíma stjórnarformaður Forsvars ehf. og eigandi fyrirtækis sem síðar rak hugbúnaðinn.
„Á sama tíma er hann sem sagt að þá útdeila þessu fyrirtæki sem hann er, verður síðan seinna og var meira að segja á þessum tíma stjórnarformaður í það verkefni að þarfagreina og smíða þetta upplýsingakerfi. Flestir myndu kalla þetta einhvers konar spillingu, óvönduð stjórnsýsla er kannski smekklegra orðalag,“ segir
Eiríkur Karl Ólafsson Smith, verkefnastjóri í fötlunarfræði við HÍ.
Undir þetta tekur Gestur Páll Reynisson, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur. „Í því ljósi þá vekur það sérstaka athygli að það er farið fram hjá lögum um opinber innkaup, virðist vera, og í annan stað að í tilviki eins meðlims stýrihópsins er um skýrt vanhæfi að ræða.“