Á Sögum - verðlaunahátíð barnanna hlaut rithöfundurinn Ólafur Haukur Símonarson heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til barnamenningar í áranna rás. Salka Sól ásamt hljómsveit flutti nokkur af þekktustu lögum Ólafs Hauks sem lifa með þjóðinni.
Sögur - verðlaunahátíð barnanna fór fram með glæsibrag sunnudaginn 2. júní þar sem mörg af helstu skáldum, tónlistarfólki og skemmtikröftum þjóðarinnar voru verðlaunuð. Heiðursverðlaunin hlaut Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur sem fyrir utan fjölda barnabóka, skáldsagna, ljóða og smásagna er höfundur fjölmargra sívinsælla sönglaga og texta sem þjóðin þekkir vel.
Sögur er uppskeruhátíð en að verkefninu standa margar stofnanir með það að markmiði að upphefja barnamenningu á Íslandi. Verðlaunað var í ýmsum flokkum en meðal þeirra sem hlutu verðlaunin voru Hatari, Skólahreysti, leiksýningin Matthildur í Borgarleikhúsinu, Erlen Ísabella Einarsdóttir sem sjónvarpsstjarna ársins og Óli Kaldal fyrir handrit ársins.
Heiðursverðlaun kvöldsins hlaut eins og áður segir Ólafur Haukur Símonarson fyrir áralangt framlag sitt til barnamenningar. Hann nefndi meðal annars í ræðu sinni að þetta væru þau verðlaun sem honum þykir mest vænt um að hafa unnið. Honum til heiðurs flutti söngkonan Salka Sól Eyfeld lög úr smiðju Ólafs, lögin Ég heyri svo vel, Það vantar spýtur og Ryksugulagið. Ásamt Sölku sáu um flutninginn þeir Karl Olgeirsson, Ingi Björn Ingason, Vignir Snær Vigfússon og Þorvaldur Þór Þorvaldsson.