Thomas Möller Olsen, sem var dæmdur fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur í héraðsdómi, hélt sig í Landsrétti í dag við fyrri framburð um að skipsfélagi hans, Nikolaj Olsen, hefði líklega orðið Birnu að bana.

Nikolaj Olsen sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins og sagði í skýrslutöku fyrir héraðsdómi á sínum tíma að hann myndi lítið eftir atburðum næturinnar vegna ölvunar. Verjandi Thomasar óskaði ekki eftir því að Nikolaj gæfi skýrslu fyrir Landsrétti. 

Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, hefur verið í Landsrétti í dag og greindi frá því sem gerst hefur þar í dag í kvöldfréttum. Þinghald stendur enn og er óvenju langt þar sem þurft hefur að þýða allt sem þar hefur farið fram fyrir Thomas yfir á grænlensku. Ríkissaksóknari, Sigríður Friðjónsdóttir, er nú að flytja mál sitt. Hún sagði að það væri algjör fjarstæða hjá Thomasi að halda því fram að Nikolaj hafi framið verknaðinn. Saksóknari vísaði til tímasetninga og við þinghaldið var spilað 35 mínútna myndband þar sem sýnt var tímabilið frá klukkan 2 um nóttina þar til klukkan 14:00 næsta dag. Þar sést að bíll, sem Thomas og Nikolaj voru í, var stöðvaður við golfskála í Garðabæ. Thomas segir að þá hafi Nikolaj keyrt í burtu. Í myndbandinu má sjá að 20 mínútum síðar koma þeir saman í bílnum þegar honum var ekið að skipinu Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. Saksóknari sagði að 20 mínútur væru ekki nógu langur tími fyrir Nikolaj til að verða Birnu að bana og koma henni í vatn eða sjó eins og raunin varð. 

Ekki kom fram mikið af nýjum gögnum í Landsrétti í dag, að sögn Ölmu. Þar var einnig sýnt myndband af Thomasi að máta úlpu sem hann kveðst ekki eiga. Blóð úr Birnu fannst í úlpunni. Þá var einnig sýnt myndband frá verjanda Thomasar. Í því mátti sjá þrívíddarlíkan af karlmanni inni í bíl þegar ekið var frá golfskálanum. Verjandinn sagði í dag að það hafi aðeins verið einn karlmaður í bílnum en því hefur saksóknari hafnað.