Sönn sakamál, brjálaðir sértrúarsöfnuðir og samsæriskenningar eru meðal viðfangsefna hlaðvarpsins Last Podcast on the Left. Þórður Ingi Jónsson tók forsvarsmenn þess tali, en þeir voru nýlega staddir á Íslandi til að viða að sér efni um galdraofsóknir.
Þórður Ingi Jónsson skrifar:
Last Podcast on the Left er vinsælt bandarískt hlaðvarp en þar er fjallað á glettinn hátt um allt hið dökka og dimma í lífinu – svo sem hrylling, raðmorðingja, sértrúarsöfnuði og samsæriskenningar. Útvarpsmaðurinn Marcus Parks er heilinn á bak við þáttinn ásamt grínistunum Henry Zebrowski og Ben Kissel. Lestin hafði samband við Marcus Parks skömmu eftir nýlega Íslandsferð hans, þar sem hann ferðaðist um landið og fór meðal annars í Galdrasafnið á Hólmavík.